136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:43]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég hef ekki séð þá bíómynd sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson vitnaði í. Sjálfsagt vitnar hann rétt í það að þar upplifi persónan aftur og aftur sama hlutinn. Það er einmitt þannig að ekkert er nýtt undir sólinni og þetta er svo sem ekkert í fyrsta skipti sem maður upplifir það að gerð sé krafa um það í þessum þingsal að flutningsmenn eða ráðherrar séu kallaðir í salinn til að vera við umræðuna.

Ég heyrði sagða þá sögu af Einari Olgeirssyni, fyrrverandi hv. þingmanni, að hann hafi einu sinni seint að nóttu komið í ræðustólinn og gert þá kröfu að náð yrði í þáverandi hæstv. fjármálaráðherra Gunnar Thoroddsen í þingsalinn til þess að hann hlýddi á ræðu hans. Einar Olgeirsson bauðst til þess að bíða í stólnum þangað til fjármálaráðherrann væri kominn í salinn. Ég endurtek, frú forseti, að það er ekkert nýtt undir sólinni í þessum efnum.