136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:34]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vísaði í andsvari mínu beint í þau orð hv. þingmanns að taka valdið af Alþingi og færa völdin frá Alþingi. Ég geri athugasemdir við það orðalag. Mér finnst það ekki rétt nálgun og ekki rétt hugsun með þeim rökstuðningi sem ég hafði hér uppi, þ.e. að valdið kemur frá þjóðinni. Það sprettur frá þjóðinni. Það á að standa í nýju stjórnarskránni okkar, í 1. eða 2. gr. Fyrir utan að Ísland sé lýðræði með þingræðisskipulagi og ein eining og allt þetta sem er kannski eðlilegt að hafa í 1. gr. stjórnarskrár á að mínu mati að koma þar setning um að allt vald spretti frá þjóðinni.

Ég tel líka að menn séu á villigötum þegar þeir tala um Alþingi sem stjórnarskrárgjafann. Það er nákvæmlega eins í því tilviki. Við sækjum umboð okkar til þjóðarinnar og fyrir hennar hönd erum við á Alþingi — hvað? Við erum tillögugjafinn. Við semjum frumvarp sem síðan á að heita svo að þjóðin kjósi um en það er með því meingallaða fyrirkomulagi að sú kosning er hluti af almennum alþingiskosningum þannig að hún er í raun og veru óbein.

Ég hef farið í gegnum margar alþingiskosningar þar sem stjórnarskrárbreytingar hafa verið undir, bæði efnislegar breytingar eins og mannréttindakaflinn 1995 og breytingar á kjördæmaskipan í tvígang. Kosningarnar snerust aldrei um þær. Þær kosningar urðu að venjulegum alþingiskosningum og voru átök milli flokka um pólitíska stefnu. Stjórnarskrárbreytingarnar gleymdust.

Þetta meingallaða fyrirkomulag hefur kannski leitt til þess misskilnings að Alþingi sé bara með beinum hætti stjórnarskrárgjafinn. En það á ekki að vera þannig. Það á að vera þjóðin. Hún þarf sjálf að fá að kjósa um það beint í sjálfstæðri kosningu. Þá rennur upp fyrir öllum að Alþingi, eða þess vegna stjórnlagaþing, er ekki stjórnarskrárgjafinn heldur er það þjóðin sjálf sem setur sér stjórnarskrána með því að segja já eða nei við tillögunni frá Alþingi eða tillögunni frá stjórnlagaþingi í kosningum. Þannig á það að vera.