136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:49]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hér hefur verið rætt í marga daga og það hefur ekkert nýtt komið fram. Hv. þm. Jón Magnússon krafðist þess að ráðherrar yrðu viðstaddir og ég hélt að það kæmu nýmæli fram í 9. ræðu hans. (Gripið fram í: Nei.) Ekki neitt, ekkert. Hér er enn kvartað yfir undirbúningi, leiðarljós að vanda til verka, það er ekki skoðað, ekki nægilegar umsagnir. Svo gerist það allt í einu núna í umræðum á þingi að opnað er fyrir að samþykkja 2. gr. frumvarpsins. (Gripið fram í.) Það hefur ekki komið fram (Gripið fram í.) og það er alger þversögn í umræðunni að vilja samþykkja allt í einu 2. gr. núna en þegar nefndin var í nefndarstörfum léðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks ekki máls á því. Svo er önnur stór þversögn í því að hv. þm. Birgir Ármannsson heldur því fram að mikil umræða hafi verið um 2. gr. í fyrri stjórnarskrárumræðum. Ég efast ekki um það og hefur komið niðurstaða um það, en það hefur verið enn þá meiri umræða um 1. gr. Af hverju gengur Sjálfstæðisflokkurinn þá ekki til liðs við stjórnina og samþykkir hana? Það er heldur enginn ágreiningur um 3. gr. en þingmenn Sjálfstæðisflokksins kjósa að halda uppi endalausu málþófi um frumvarp sem er að mestu leyti ágreiningslítið eða þá að hægt er að ná samkomulagi um þau ágreiningsatriði sem uppi eru. Þess vegna legg ég enn og aftur til að sjálfstæðismenn hætti nú málþófinu, ljúki 2. umr. og við setjumst niður í sérnefndinni samningsfúsir og samningsliprir og vinnum okkur að niðurstöðu eins og skynsamt fólk.