136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hafna því sem hv. þingmaður segir um að ræður séu allar eins. Auðvitað koma fram svipuð sjónarmið í mörgum ræðunum, það er ekkert óeðlilegt, enda lýsa menn sömu afstöðu til þeirra álitaefna sem hér eru uppi. En vandinn hefur hins vegar verið sá að það er alveg sama hvaða röksemdir er farið með, það er alveg sama hvaða sjónarmið koma fram um vinnubrögð og aðdraganda málsins, hvernig eigi að fara að þessu og hvernig eigi að nálgast þetta. Nálgunin innan ríkisstjórnarflokkanna og annarra flokka sem styðja þetta mál hefur verið sú að allar breytingar verði að vera á þeirra forsendum. Það voru þessir flokkar, reyndar bara ríkisstjórnarflokkarnir tveir, sem tóku ákvörðun um hvaða atriðum yrði breytt í stjórnarskránni í þessari lotu. Það var ekkert samráð um það. Það voru þeir sem tóku út nokkrar greinar sem þeir vildu klára og fóru síðan til Framsóknarflokksins og sömdu um að bæta stjórnlagaþinginu við. Það var bara þannig. Það var ekkert um það að ræða að menn settust niður og skoðuðu allar greinar stjórnarskrárinnar og kæmu sér saman um hvaða atriði væri brýnt að laga núna. Þó að mönnum gefist kostur á því á síðari stigum að gera einhverjar tillögur um orðalagsbreytingar þegar einhverjir aðrir hafa ákveðið allar forsendurnar er það ekki mikið samráð.

Ég vona að okkur vinnist tími til að leita að einhverri sameiginlegri niðurstöðu í þessu og ef hv. þingmaður hefur ekki tekið alvarlega það sem ég og fleiri sjálfstæðismenn sögðum í umræðum í sérnefndinni, að við værum tilbúnir til að breyta 79. gr. á einhverjum þeim grundvelli sem kemur fram í 2. gr. sem við gætum kannski rætt um hvernig við vildum útfæra — ef hv. þingmaður er tilbúinn að ræða það frekar fagna ég því. Hins vegar bendi ég á að hv. þingmaður svaraði í engu (Forseti hringir.) spurningunni um það hvernig ætti að fara að því þegar tvö þing (Forseti hringir.) fara með það hlutverk á sama tíma (Forseti hringir.) að endurskoða stjórnarskrána og (Forseti hringir.) hvernig í veröldinni menn (Forseti hringir.) hefðu látið sér detta slík hugsun í hug.