136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[19:19]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þegar málið kom fram í síðustu viku til 2. umr. flutti ég ræðu og tjáði efnislega afstöðu mína til allra greinanna og taldi þá og benti á nákvæmlega það sama og ég gerði í athugasemdum mínum áðan, að það væri í raun og veru ekki mikill ágreiningur í málinu, það bæri ótrúlega lítið á milli. Það er þess vegna sem ég hef ekki áttað mig á því sem ég hef hér kallað málþóf, þó þannig að ég játa auðvitað sjálfstæðismönnum fullt málfrelsi og hvarflar ekki að mér að gagnrýna það að þeir taki til máls og skýri sjónarmið sín. Ég hef gagnrýnt það að ég heyri sömu efnisatriðin allt of oft. Það er fullvissa mín og var fullvissa mín að það væri hægt að ná slíkri sátt en hv. fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í sérnefndinni léðu ekki máls á öðru en að tala um formsatriði. Ég verð að segja að þeir voru hreinlega mjög reiðir þar, hluti fulltrúanna, og tilraunir til að nálgast efnislega umræðu voru slegnar út af borðinu trekk í trekk. Þannig var það bara.

Ég vil því spyrja hv. þingmann sem tók til máls á undan mér og ég er í andsvari við: Af hverju má ekki klára þessa 2. umr. þegar öll efnissjónarmið eru komin í loftið? Menn eru orðnir sammála um mjög margt eða eiginlega flest nema úrlausnaratriðið er auðvitað 4. gr. Af hverju vill ekki Sjálfstæðisflokkurinn ljúka þessari umræðu og fara með málið í nefnd, klára 2. umr. og fara með það í nefnd og fara (Forseti hringir.) síðan í 3. umr. og sjá hvað verður? Sjálfstæðisflokkurinn hefur full tök á því ef hann verður (Forseti hringir.) óánægður með þá niðurstöðu að þæfa málið í 3. umr.