136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

gengi krónunnar.

[13:34]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég var að rifja upp í huganum þegar gengi krónunnar hrundi á útmánuðum ársins 2008 og náttúrlega hið mikla áfall í haust, þá ræddu menn það auðvitað og höfðu af því miklar áhyggjur en ég man ekki eftir svona einföldum málflutningi þá, að menn hafi talið að þetta væri allt því að kenna að ríkisstjórnin hefði ekki í sínum höndum að kippa þessum hlutum í lag með einföldum hætti. Það væri fróðlegt að heyra það frá hv. málshefjanda: Hvað telur Sjálfstæðisflokkurinn að betur hefði mátt fara í þessum efnum, hvernig hefði Sjálfstæðisflokkurinn staðið að málum? (Gripið fram í.) Er Sjálfstæðisflokkurinn t.d. að mæla með því að við notum verulegan gjaldeyrisforða til að reyna að lyfta gengi krónunnar tímabundið?

Að sjálfsögðu eru það vonbrigði að krónan skuli hafa veikst aftur. Á því eru ýmsar skýringar, gjalddagar og vaxtaafborganir. Það er líka greinilega þannig að lengri gjaldfrestir útflutningsfyrirtækja þýða hægari skil gjaldeyris til baka. Birgðasöfnun hefur þarna áhrif og margt fleira sem leggst saman og veldur því að viðleitnin til að styrkja og koma stöðugu gengi á krónuna er erfiðari glíma en menn höfðu verið að vona.

Það hefur þó náðst að sjálfsögðu sá árangur að vaxtalækkunarferli er hafið og vextir munu lækka núna hratt hjá fjármálastofnunum sem hafa í raun og veru beðið eftir því tækifæri. Það eru ágætar ástæður til að ætla að gengi krónunnar styrkist á nýjan leik núna á fyrri hluta og fram á mitt ár. Þá eru að vísu aftur allþungir gjalddagar þannig að þetta er viðvarandi viðfangsefni að reyna að ná tökum á ástandinu en það er ekki þannig að menn hafi í sínum höndum einföld úrræði til að kippa þessu í liðinn nema þá ef það væri það eitt að taka áhættuna af því að nota í stórum stíl dýrmætan gjaldeyrisvaraforða til að kaupa upp gengi krónunnar.