136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

gengi krónunnar.

[13:37]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það er rangt sem hér er haldið fram að það þurfi í stórum stíl að nota gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans til þess að styðja við gengi krónunnar. Staðreyndirnar tala sínu máli. Með litlum minni háttar inngripum í gjaldeyrismarkaðinn hafði Seðlabankinn mikil áhrif. Það sem hefur í millitíðinni gerst er að Seðlabankinn er horfinn af vettvangi. Nýi seðlabankastjóri ríkisstjórnarinnar hefur greinilega tekið ákvörðun og nýja peningamálastjórnin sem núna er rekin í Seðlabankanum, það er nýja stefnan (Gripið fram í.) að hverfa af vettvangi og leyfa krónunni að falla í frjálsu falli. 16% lækkun síðan 1. febrúar er árangur þessarar ríkisstjórnar og það þýðir ekkert að koma hingað upp núna, eftir allar yfirlýsingarnar sem féllu um að menn ætluðu að fara að menn ætluðu að fara að endurvekja hér traust og það mundi bjarga okkur út úr vandanum, og tala eins og ekkert sé hægt að gera. Þessari ríkisstjórn er gersamlega að mistakast stóra verkefnið, stóra loforðið er að engu orðið um að hér mundi allt lagast þegar lögum um Seðlabankann yrði breytt og (Forseti hringir.) þangað kæmi inn nýr seðlabankastjóri. Staðreyndin er sú að vextir munu ekki lækka (Forseti hringir.) ef krónan heldur áfram að gefa sig.