136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

gengi krónunnar.

[13:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Kannski við fáum sjálfstæðismenn til að kenna okkur hvernig á að gera þetta. (Gripið fram í: Já, já.) Var það ekki Seðlabankinn sem fór á hausinn og þurfti að endurfjármagna upp á 270 milljarða kr.? Er ekki banka- og efnahagshrunið að leggja gríðarlegar byrðar á þjóðarbúið og þar með talið ríkissjóð? Þarf ekki að endurfjármagna allt bankakerfið? Svo kemur formaður Sjálfstæðisflokksins með mikinn hávaða og talar eins og sá sem valdið hefur og það sé einhver sérstakur aumingjaskapur að vera ekki búinn að kippa þessu öllu í liðinn. (BjarnB: Á að gefast upp?) Engar tillögur, ekki neitt annað en þá það að taka áhættuna af því að ráðstafa dýrmætum gjaldeyrisforða í tímabundnar aðgerðir til að lyfta upp gengi krónunnar. Er það það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill að ríkisstjórnin geri núna dagana (Gripið fram í.) fyrir kosningar? Það er ábyrgð og yfirvegun, hagstjórn sem tekur mið af erfiðum aðstæðum í þjóðarbúinu og því að við erum ekki í aðstöðu til að taka áhættuna af því að tapa í viðbót við hrunið í boði Sjálfstæðisflokksins dýrmætum gjaldeyrisforða í tilraunir sem kannski mundu ekki heppnast til þess að lyfta tímabundið upp gengi krónunnar. Hér er talað af hálfu Sjálfstæðisflokksins fyrir áframhaldandi ábyrgðarleysi í þessum efnum.