136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

sumarvinna námsmanna og Nýsköpunarsjóður.

[13:39]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Það er ekki ofsögum sagt að íslenskir námsmenn hafi verulegar áhyggjur af framtíð sinni. Í ljósi þess að 18 þúsund Íslendingar eru atvinnulausir blasir sú staðreynd við okkur að um 13 þúsund háskólanemar eru á leið út á vinnumarkaðinn á sumarmánuðum og við höfum kallað eftir því á vettvangi Alþingis hvað hæstv. ríkisstjórn ætli sér að gera til að koma til móts við bráðavanda námsmanna.

Hæstv. menntamálaráðherra lýsti því yfir fyrr í dag að hún teldi líklegt að ríkisstjórnin mundi koma til móts við vanda 3–4 þúsund íslenskra námsmanna þannig að þá standa eftir 9–10 þúsund námsmenn og hvað þeir eigi að hafa að störfum í sumar, hvort þeir eigi að koma sér út á vinnumarkaðinn eða stunda sumarnám líkt og við höfum rætt í þinginu.

Ég vil því spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort hún telji að það sé nóg að koma einungis til móts við 3–4 þúsund námsmenn þegar ljóst er að við 13 þúsund námsmönnum blasir atvinnuleysissumar verði ekkert að gert.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hún hyggist beita sér fyrir því að efla Nýsköpunarsjóð námsmanna. Árið 2003 veitti Nýsköpunarsjóður námsmanna 161 námsmanni styrk til að fara út í nýsköpunarverkefni sem mörg hver hafa gefið mjög góðan árangur en árið 2008 voru styrkirnir einungis 79. Það er mikilvægt þegar við horfum upp á það að 13 þúsund háskólanemar muni mögulega ekki hafa neitt fyrir stafni í sumar að við grípum til allra úrræða til að koma til móts við þennan hóp. Þess vegna beini ég þessum tveimur spurningum til hæstv. ráðherra: Ætlar hún að koma til móts við fleiri en 3–4 þúsund námsmenn eins og hún sagði í fréttum í morgun og hyggst hæstv. ráðherra fjölga styrkjum hjá Nýsköpunarsjóði námsmanna?