136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

sumarvinna námsmanna og Nýsköpunarsjóður.

[13:45]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Svo ég víki fyrst að þessu vísa ég í könnun sem starfshópur iðnaðarráðuneytisins lét gera meðal stúdenta þar sem niðurstaðan varð að um 7.000 stúdentar voru svartsýnir á að fá vinnu. Hins vegar var líka gerð könnun út frá þeirri nálgun að meta atvinnuástand námsmanna. Oft hefur sú aðferð verið notuð að miða bara við að atvinnuleysi í aldurshópnum 16–24 ára sé sett í ákveðið hlutfall við almennt atvinnuleysi. Út frá þeirri nálgun mætti ætla að 3.600 stúdentar yrðu án vinnu í sumar. Þá er miðað við að þessi hópur sé almennt meira atvinnulaus eða eigi erfiðara með að finna sér vinnu en almennt á vinnumarkaðnum.

Hvað varðar sumarstörf fyrir stúdenta er verið að skoða möguleika á því að efla Nýsköpunarsjóð námsmanna. Sá starfshópur sem hér er vísað í á vegum iðnaðarráðherra hefur skoðað það að stofna tímabundinn verkefnasjóð, sumarverkefnasjóð, til að koma til móts við námsmenn. Enn fremur er verið að skoða möguleika á verkefnum sem hér voru kynnt undir almennu átaki til atvinnusköpunar hvað varðar stígagerð og skógræktarverkefni sem ætti líka að geta nýst námsmönnum þannig að áfram er unnið að þessum málum. Skrefið í dag miðar í rauninni bara að því að koma til móts við námsmenn sem vilja stunda sumarnám en það er líka unnið að því að fjölga störfum fyrir námsmenn. [Hlátur í þingsal.]