136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

hvalveiðar.

[13:47]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Einar K. Guðfinnsson tók ákvörðun um að heimila hvalveiðar næstu fimm árin. Þegar vel var liðið á janúarmánuð var með tilkomu hæstv. núverandi sjávarútvegsráðherra í ráðuneytið strax farið að gagnrýna þá aðgerð og boða breytingar á því vinnuferli sem var komið í gang. Þetta hefur haft þær afleiðingar að þeir sem hugðu á atvinnuuppbyggingu í þessum iðnaði, sérstaklega hvað varðar hrefnuveiðimenn, hafa ekki getað fengið það fjármagn eða lagt í að leggja fram það fjármagn sem þarf til að stofna öflugt fyrirtæki um þetta. Það er það mikil óvissa um framtíðina að ekki er hægt að leggja í þær fjárfestingar sem upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir og hefðu haft í för með sér mjög spennandi atvinnusköpun. Þess í stað mun þetta fara af stað með einhverjum lágmarksrekstri og lágmarksfjárfestingu sem mun auðvitað hefta þennan atvinnuveg og er orsökin falin í þeirri óvissu sem fram undan er.

Nú liggur á borðinu hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra frumvarp að lögum þar sem m.a. er gert ráð fyrir að taka úr gildi þessar heimildir til fimm ára sem nauðsynlegar eru til að hægt verði að fara í frekari fjárfestingar og uppbyggingu atvinnugreinarinnar. Ég spyr hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort þetta sé það frumvarp og sú lína sem hann muni fylgja eftir verði hann áfram með ítök í sjávarútvegsráðuneytinu eftir kosningar. Ég varpa einnig fram þeirri spurningu hvort honum finnist ekki eðlilegt og í raun gott að fá fram skýran vilja Alþingis sem liggur (Forseti hringir.) í þingsályktunartillögu sem lögð var fram í þinginu en hefur ekki (Forseti hringir.) fengist flutt enn. Væri ekki gott að fá hana fram í dagsljósið og láta þingið segja hug sinn í þessu máli?