136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

hvalveiðar.

[13:51]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er í þessu eins og öðru hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra að hann svarar ekki spurningum mínum. Ég spurði hann hvort sú stefna sem í raun væri boðuð í því frumvarpi að lögum sem liggur á heimasíðu ráðuneytisins væri hans stefna og þar með hvort hann tæki úr sambandi þær heimildir til fimm ára sem veittar hafa verið og eru grundvöllur þess að byggja upp og leggja í fjárfestingu í þessari atvinnugrein eins og öðrum. Það getur enginn farið í tugmilljóna eða hundrað milljóna króna fjárfestingu með það eitt í farteskinu að geta hugsanlega starfað í greininni í eitt ár. Ég vil endilega að hæstv. sjávarútvegsráðherra svari þessari spurningu.

Þegar ég vitnaði í vinnuferlið var ég ekki að vitna í vinnuferli á vegum ráðuneytisins. Ég vísaði í það vinnuferli sem var komið af stað hjá því fólki sem er búið að bíða í mörg ár með atvinnutæki sín, þekkingu sína og reynslu undir þeim loforðum að hér ættu aftur að fara af stað hvalveiðar. Ég var að vitna í væntingar þess fólks um að geta farið að stunda vinnu sína aftur. Það vinnuferli var rofið (Forseti hringir.) þegar hæstv. sjávarútvegsráðherra kom í ráðuneytið (Forseti hringir.) með þeirri óvissu sem hann hefur skapað í þessu máli. (Forseti hringir.) Það þýðir að þessi atvinnutækifæri, m.a. (Forseti hringir.) uppi á Akranesi, í umdæmi hæstv. forseta, (Forseti hringir.) munu (Forseti hringir.) ekki vera til staðar í sumar.