136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

hagræðing í heilbrigðisþjónustu.

[13:53]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Eins og hér hefur komið fram er krónan að veikjast, atvinnuleysið að aukast og efnahagslíf landsins stendur mjög veikt. Þetta er grafalvarleg staða og alveg ljóst að við þurfum að koma efnahagslífinu í gang. Við framsóknarmenn höfum talað þar um róttæka aðgerð, 20% leiðréttingu á skuldum bæði húsnæðislána og til fyrirtækja, á meðan núverandi ríkisstjórnarflokkar hafa verið í hálfgerðum smáskammtalækningum, því miður.

Það þarf líka að hagræða í ríkisrekstri. Það er ljóst að heilbrigðisþjónustan og menntakerfið taka um 60% af útgjöldum ríkisins og við þurfum að hagræða um 50 milljarða í næstu fjárlögum árið 2010, 50 milljarða aftur 2011 og 2012, 150 milljarða á næstu þremur árum. Þessi hagræðing hlýtur að koma við heilbrigðisþjónustuna.

Núna erum við komin fram í apríl og ljóst að rammar ráðuneyta hljóta að vera orðnir nokkuð skýrir. Því er mjög mikilvægt að þegar hagrætt er innan heilbrigðisþjónustunnar sé það ekki gert þannig að grunnþjónustan bíði varanlegan skaða vegna þess að þegar hagur vænkast á ný er mjög mikilvægt að við getum strax aukið þjónustuna aftur.

Við hæstv. heilbrigðisráðherra höfum á fyrri tíð rætt saman um t.d. tilvísanakerfi að danskri fyrirmynd sem gæti líklega sparað um 500 milljarða kr. eða upp undir það á ári án þess að þjónustan mundi skerðast. Því spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra: Er heilbrigðisráðherra búinn að undirbúa hvað gerist eftir kosningar? Það líður að kosningum. Ég geri mér grein fyrir því að hæstv. ráðherra getur ekki núna tekið pólitískar ákvarðanir um hvernig eigi að hagræða innan heilbrigðisþjónustunnar en það væri óábyrgt að undirbúa ekki neitt. Því vil ég gjarnan spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra: Þarf Alþingi að koma saman á sumarþingi strax eftir kosningar (Forseti hringir.) til að taka ákvarðanir (Forseti hringir.) svo unnt sé að hagræða í heilbrigðisþjónustunni eins og við neyðumst til að gera?