136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

stefna í ríkisfjármálum og verðmat nýju bankanna.

[14:03]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ef við förum aðeins yfir þetta með gengið lætur nærri að gengi krónunnar hafi lækkað um 100% á u.þ.b. ári. Sjálfstæðismenn gera hér mikið úr því að 16% af þessari lækkun sé á ábyrgð núverandi ríkisstjórnar vegna þess að gengið hefur gefið eftir núna í mars og byrjun apríl. Er það þá ekki þannig að 84% af þessu gengishruni sé á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins?

Ég er ekki feiminn við þessa umræðu [Háreysti í þingsal.] ef hv. sjálfstæðismenn telja sig slá af því miklar keilur í vandræðum sínum út af öðrum málum að fara upp með umræðu af þessu tagi sem er satt best að segja ekki uppbyggileg. Auðvitað höfum við öll miklar áhyggjur af veikingu krónunnar og af gríðarlegum skuldaerfiðleikum heimila og atvinnulífs. Ég held að við þurfum ekkert að fara í flokkadrætti um það. Það er eins ódýrt og nokkuð getur verið ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar núna að reyna að prjóna upp með það 10 dögum fyrir kosningar að öll þessi vandamál séu bráðabirgðaríkisstjórn að kenna sem tók við völdum 1. febrúar sl. Það dæmir sig fullkomlega sjálft.

Hvað varðar upplýsingar um ríkisfjármál er unnið samkvæmt því erfiða prógrammi að ná 150–170 milljarða halla á ríkissjóði í boði Sjálfstæðisflokksins, sem Sjálfstæðisflokkurinn skilur eftir sig, niður í 0, þ.e. frumjöfnuði á árinu 2011 og heildarjöfnuði á árinu 2013. Þetta er skýrt og menn vita hvað þetta þýðir, að það þarf að taka fyrsta skrefið á næsta ári og stærðargráða þess er 35–55 milljarðar kr. í minna bil milli tekna og gjalda hjá ríkissjóði. Þannig er þetta. Þessi spil hafa verið lögð á borðið og við erum ekki að fela það fyrir kosningar hvað við teljum að þurfi að gera eftir kosningar.

Varðandi matið á bönkunum er yfirmatið nú að störfum eftir því sem ég best veit í öllum þremur tilvikum. Hversu langan tíma það nákvæmlega tekur get ég ekki upplýst, ég hef ekki þær dagsetningar eða tímasetningar í mínum höndum en ég (Forseti hringir.) get aflað þeirra.