136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

stefna í ríkisfjármálum og verðmat nýju bankanna.

[14:05]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég gat mér rétt til um fúkyrðaflauminn, ég fékk hann alveg þannig að þar hafði ég rétt fyrir mér. Líka varðandi það að svarið var ekkert svar. Þetta er eins og segir í laginu: Ekkert svar, ekkert svar, frá ríkisstjórninni. (Gripið fram í: … syngja?) Það var ekki ég sem talaði um það hér að þessi nýja ríkisstjórn mundi láta verkin tala, það var hún sjálf. Og hver eru verk þessarar nýju ríkisstjórnar?

Ókei, við erum búin að fá það upplýst. Samfylkingin ber núna 100% — [Háreysti í þingsal.] það er Samfylkingin sem ber 100% ábyrgð á gengisfalli krónunnar, ekki alveg Vinstri grænir, aðallega Samfylkingin. Það er líka búið að upplýsa að þessi auglýsing frá Samfylkingunni er ekki rétt því að endurmati og verðmati nýju bankanna er sem sagt ekki lokið. En það er verið að segja allt annað í auglýsingu frá Samfylkingunni. Þar segir líka m.a. að ábyrg ríkisfjármálastefna liggi fyrir. Hún liggur hvergi fyrir, það kemur alveg ljóst fram.

Það sem liggur líka fyrir er að það er bullandi ágreiningur meðal ríkisstjórnarflokkanna varðandi atvinnumál, enda segir hér „Áætlun í vinnslu“ þegar kemur að verkefnum sem eru þjóðhagslega arðbær og krefjast mikillar atvinnuþátttöku. (Forseti hringir.) Þar eru málin „í vinnslu“ eins og segir í auglýsingunni.