136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

fjármálafyrirtæki.

409. mál
[14:08]
Horfa

Frsm. viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá hv. viðskiptanefnd um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, nánar tiltekið um slit fjármálafyrirtækja.

Frumvarpið sem hér um ræðir er afrakstur heildarendurskoðunar á XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki og er jafnframt viðbrögð við því ástandi sem skapaðist hér á landi við fall bankanna í fyrrahaust. Við gerð frumvarpsins hefur einkum verið lögð áhersla á að jafnræðis kröfuhafa verði gætt og að reglur um endurskipulagningu og slit fjármálafyrirtækja samræmist hliðstæðum reglum um önnur fyrirtæki og einstaklinga, en þær reglur er að finna í gjaldþrotaskiptalögunum, nr. 21/1991, sem eru þrautreynd og hafa gefist vel.

Í nefndarálitinu er rifjað upp að með lögum nr. 130/2004 var tilskipun um endurskipulagningu fjárhags fjármálafyrirtækja og slit þeirra og samruna við önnur fjármálafyrirtæki innleidd í íslenskan rétt. Tilskipuninni var m.a. ætlað að koma á samræmdum reglum á Evrópska efnahagssvæðinu um endurskipulagningu fjárhags og slit fjármálafyrirtækja.

Við þekkjum hvað gerðist haustið 2008 þegar stjórnir þriggja stærstu bankanna hér á landi óskuðu eftir því við Fjármálaeftirlitið að það gerði ráðstafanir til að yfirtaka þá. Þá dugði ekki það regluverk og sú lagasetning sem það byggði á og hér þurfti að setja neyðarlög. Aðstæðurnar voru ófyrirsjáanlegar þegar reglur XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki voru settar og óvenjulegar að því leyti að segja má að heilt fjármálakerfi hafi fallið með bönkunum þremur en ákvæðin sem byggð voru á þessari tilskipun miðuðust fremur við að ein fjármálastofnun eða hluti fjármálakerfis hryndi en ástand í fjármálakerfinu væri þó nokkurn veginn eðlilegt að öðru leyti.

Það var gripið til þess að setja svonefnd neyðarlög, nr. 125/2008. Með þeim voru gerðar ýmsar breytingar á ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki. Fjármálaeftirlitinu var m.a. veitt víðtæk heimild til að yfirtaka stjórn fjármálafyrirtækis við tilteknar aðstæður og eftirlitinu veitt heimild til að skipa fimm manna skilanefndir sem ætlað var að fara með allar heimildir stjórna yfirteknu fjármálafyrirtækjanna samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög og hafa umsjón með meðferð eigna þess og annast rekstur.

Þessi lög voru síðan endurbætt með svokölluðum nóvemberlögum, nr. 129/2008. Á þeim lögum voru gerðar þríþættar breytingar. Í fyrsta lagi var kveðið á um að fjármálafyrirtæki gæti verið í greiðslustöðvun í allt að 24 mánuði. Einnig að aðstoðarmaður í greiðslustöðvun yrði ekki skaðabótaskyldur vegna ákvarðana sinna og aðgerða sem aðstoðarmaður nema um væri að ræða brot af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi, en þetta ákvæði var byggt á ákvæðum í neyðarlögunum sem ég nefndi áðan, um skilanefndir og starfsmenn Fjármálaeftirlitsins sem voru undanþegnir slíkri ábyrgð. Loks var í nóvemberlögunum lagt bann við því að dómsmál yrði höfðað gegn fjármálafyrirtæki í greiðslustöðvun nema í nánar tilgreindum tilvikum, og var einkum tekist á um þetta ákvæði hér þegar frumvarpið var til umræðu. Þetta síðasttalda ákvæði var talið brjóta gegn stjórnarskrá, rétti manna til að leita réttar síns fyrir dómi og Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi svo vera fyrr í vetur.

Með því frumvarpi sem hér er til umræðu er lagt til að flest ákvæði nóvemberlaganna verði felld brott. Meginatriði þessa frumvarps er að felldar verða brott sérstakar reglur um lengd greiðslustöðvunar fjármálafyrirtækja og afnumið það fyrirkomulag að aðstoðarmaður við greiðslustöðvun verði ekki skaðabótaskyldur og að fellt verði úr lögunum ákvæði um að dómsmál megi ekki höfða gegn fjármálafyrirtæki meðan á greiðslustöðvun stendur.

Segja má að frumvarpið sem gerir ráð fyrir nýju regluverki um slit fjármálafyrirtækja byggist á því að fjármálafyrirtækið sjálft hafi frumkvæði að því að leita til Fjármálaeftirlitsins um að það taki við ráðum yfir fyrirtækinu. Þá fellur úr gildi umboð stjórnar og við tekur bráðabirgðastjórn sem alla jafna er ætlað að starfa í um þrjá mánuði. Í ákvæði til bráðabirgða IV í þessu frumvarpi er jafnframt kveðið á um að Fjármálaeftirlitið geti haft frumkvæði að því að yfirtaka ráð fjármálafyrirtækis en í því ákvæði eru lögfestar flestar þær heimildir sem er að finna í neyðarlögunum, 100. gr. a. Þar er lagt til að fjármálafyrirtæki verði tekið til slita eftir sérstökum reglum en í grunninn sé ýmsum ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti þó beitt við slitameðferðina. Þannig skal í stað skiptastjóra þrotabús skipa sérstaka slitastjórn. Markmið starfa slitastjórnar er að fá sem mest fyrir eignir fyrirtækisins, innkalla kröfur og taka afstöðu til þeirra. Samkvæmt frumvarpinu geta kröfuhafar gætt hagsmuna sinna við slitameðferð og átt þess kost að bera undir dómstóla ágreining um réttmæti krafna sinna og um ákvarðanir og ráðstafanir slitastjórnar eins og er almennt í gjaldþrotaskiptalögunum.

Síðan er í 9. gr. fjallað um lok slitameðferðar og þar er einnig um að ræða svipaðar aðferðir og er að finna í gjaldþrotaskiptalögunum. En mest umfjöllun nefndarinnar held ég að megi segja að hafi verið um ákvæði til bráðabirgða en gerð er tillaga um það í frumvarpinu að við lögin bætist fjögur ákvæði til bráðabirgða. Þar er m.a. í bráðabirgðaákvæði I kveðið á um að hafi fjármálafyrirtæki verið skipuð skilanefnd en það ekki komið í greiðslustöðvun fyrir gildistöku laganna skuli sú skilanefnd sjálfkrafa verða bráðabirgðastjórn og fellur þá meðferð á skiptum og slitum þess fyrirtækis undir almenn ákvæði laganna. Hér mætti taka dæmi af SPRON sem skipuð hefur verið skilanefnd en er ekki í greiðslustöðvun.

Í ákvæði til bráðabirgða II eru hins vegar lagðar til nokkrar sérreglur um fjármálafyrirtæki sem hafa fengið heimild til greiðslustöðvunar við gildistöku þessara laga og þar er um að ræða Straum – Burðarás auk bankanna þriggja. Í fyrsta lagi er lagt til að greiðslustöðvun þessara fjármálafyrirtækja haldist áfram þrátt fyrir gildistöku laganna og í 2. tölulið ákvæðisins er mælt fyrir um að í greiðslustöðvun þeirra verði tilteknum ákvæðum frumvarpsins um slitameðferð beitt eins og fyrirtækið hefur verið tekið til slita með dómsúrskurði á þeim degi sem frumvarpið verður að lögum. Slitameðferðin mun áfram kennd við heimild til greiðslustöðvunar og þykir það nauðsynlegt til að greiðslustöðvun þessara fyrirtækja verði áfram viðurkennd af erlendum dómstólum.

Nefndin leggur til breytingu á þessum tölulið í þá veru að aðstoðarmaður í greiðslustöðvun sem hefur verið skipaður í þeim fjórum tilvikum sem ég nefndi hafi áfram eftirlit með ráðstöfun skilanefndar.

Í þriðja lagi er lagt til að skilanefndir þessara fyrirtækja haldi áfram störfum og gegni nánar tilgreindum verkefnum sem mælt er fyrir um að slitastjórn hafi samkvæmt almennum ákvæðum frumvarpsins. Þessi verkefni eru talin upp í 3. tölulið ákvæðisins og tel ég ekki þörf á að fara yfir þau frekar nema sérstakt tilefni gefist til.

Tillögur nefndarinnar varðandi þessi atriði eru tvíþættar. Í fyrsta lagi er lagt til að orðalagi 2. málsliðar 3. töluliðar verði breytt í þá veru að verði sæti laust í skilanefnd eftir gildistöku laganna þurfi Fjármálaeftirlitið ekki að skipa mann í stað þess sem hættir nema nauðsyn beri til með tilliti til þeirra verkefna sem nefndin á enn ólokið. Þetta er öfugt við það sem orðalag frumvarpsins gerði ráð fyrir.

Þá lagði nefndin til svokallað sólarlagsákvæði um störf skilanefnda og lagði til að það yrði takmarkað hversu lengi skilanefndir skyldu starfa eftir gildistöku laganna þannig að slitastjórn mundi áður en sex mánuðir eru liðnir frá gildistöku, verði frumvarp þetta að lögum, taka við þeim verkefnum sem skilanefndum er ætlað að halda áfram að vinna samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu í 3. tölulið en þá verður liðið um það bil ár frá því að skilanefndirnar hófu störf. Því er ekki að leyna að þessi tillaga nefndarinnar hefur reynst býsna umdeild og hefur sætt mikilli gagnrýni, einkum af hálfu skilanefndanna, þeirra manna sem í þeim sitja og kröfuhafa sem mest samskipti hafa átt við þær. Þó að ég ætli ekki að tala fyrir hönd annarra nefndarmanna eru nokkrir nefndarmenn í hv. viðskiptanefnd með fyrirvara við þetta ákvæði og munu væntanlega gera grein fyrir honum hér.

Jafnframt vil ég lýsa því yfir að nefndin er sammála um að taka málið inn á milli umræðna til að fjalla frekar um þetta atriði, sólarlagsákvæðið. Það hafa borist býsna margar umsagnir, ábendingar og tillögur þar að lútandi eftir að nefndin skilaði áliti sínu inn og það er eðlilegt að skoða það í ljósi þeirra. Ég vil taka það fram að við munum einmitt af þessum ástæðum kalla breytingartillögu aftur til 3. umr. við atkvæðagreiðsluna sem lýtur að þessu sólarlagsákvæði sem mig minnir að sé breytingartillaga 2.c. Ástæðan fyrir því að nefndin setti þessa tillögu fram er sú að nefndin taldi eðlilegt að skilanefndirnar rynnu sitt skeið á enda og að það ætti ekki að reynast vandkvæðum bundið að flytja verkefni yfir til slitastjórna enda gæfist þá rúmur tími til þess á hálfu ári. Það má benda á að verkefni skilanefnda var alltaf hugsað sem bráðabirgðaverkefni. Fyrsta skilanefndin sem var skipuð í Landsbankann var skipuð til 30 daga, næsta til 60 daga, sú þriðja til 90 daga en nú eru liðnir sex mánuðir þannig að sex mánuðir til viðbótar hefðu átt að reynast nægur tími.

Í nefndarálitinu er einnig bent á að frumvarpið er afrakstur heildarendurskoðunar á XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki og nefndin telur eðlilegt að svo fljótt sem auðið er verði einungis farið eftir nýju reglunum verði frumvarpið að lögum en ekki að um tvöfalt kerfi verði að ræða í ótilgreindan tíma. Sem fyrr segir mun nefndin væntanlega skoða þetta á milli umræðna.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að aðstoðarmenn í greiðslustöðvun taki sjálfkrafa sæti í slitastjórnum fyrirtækjanna. Nokkrar ábendingar eða fyrirspurnir komu um hvort þetta fyrirkomulag gæti talist æskilegt með hliðsjón af sjónarmiðum um hæfi. Þar er til þess að vísa að í 5. mgr. 75. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. segir að ef í ljós komi eftir skipun skiptastjóra, í þessu tilviki aðstoðarmanns í greiðslustöðvun, að hann sé vanhæfur til að leysa tiltekið verk af hendi vegna vanhæfis og það án þess að það yrði talið varða neinu fyrir rækslu starfans að öðru leyti getur dómari að hans ósk skipað annan mann til að leysa verkið af hendi. Í tilvikum þar sem efast er um hæfi aðstoðarmanns í slitastjórn getur hann þannig vikið frá ákvarðanatöku.

Nefndin lagði einnig til að við ákvæði til bráðabirgða II bættist nýr töluliður þess efnis að hnykkt yrði á því að frá gildistöku laganna greiðist allur kostnaður af greiðslustöðvun og slitameðferð af eignum þess fjármálafyrirtækis sem í hlut á. Við nánari athugun hefur verið bent á að þessi breytingartillaga kynni að valda misskilningi og ýta undir þá túlkun að vafi leiki á ákvæðum neyðarlaganna þar sem fjallað er um ábyrgð ríkisins á kostnaði við slitameðferð fjármálafyrirtækja. Nefndin tekur þessar athugasemdir til greina og mun kalla þessa breytingartillögu aftur til 3. umr. við atkvæðagreiðslu á eftir því að það er ljóst að í neyðarlögunum segir að ríkissjóður beri ábyrgð á kostnaði af framkvæmd aðgerða Fjármálaeftirlitsins við slit og greiðslustöðvun fjármálafyrirtækja. Þrátt fyrir það ákvæði að ríkissjóður hafi borið ábyrgðina hafa ríkissjóður og Fjármálaeftirlitið greitt allan áfallinn kostnað af störfum skilanefnda og einnig mati á eignum bankanna. Það var ekki ætlunin, a.m.k. ekki í mínum huga, þegar ákvæðið var lögfest að svo yrði heldur var þessu ákvæði eingöngu ætlað að tryggja að ríkið bæri ábyrgð á þeim kostnaði við skipti sem ekki fengist greiddur af eignum viðkomandi fjármálafyrirtækis eða bús eins og almennt gildir um skiptingu þrotabúa.

Herra forseti. Ég vil að lokum víkja að gildistíma og ákvæði til bráðabirgða IV. Nefndin gerir tillögu um að tímamark gildistímaákvæðisins í 100. gr. a gildandi laga, þar sem m.a. er fjallað um að Fjármálaeftirlitið geti sjálft haft frumkvæði að því að koma fjármálafyrirtæki til slitameðferðar, verði lengt til 1. júlí 2010. Upphaflega gerði frumvarpið ráð fyrir því að það mundi renna út um næstu áramót og í neyðarlögunum var ákvæði þess efnis að ákvæðið skyldi tekið til endurskoðunar fyrir árslok 2009. Nefndin gerir sem sagt tillögu um að þetta ákvæði neyðarlaganna verði framlengt og verði í gildi til 1. júlí 2010. Ég tek fram að auðvitað getur Fjármálaeftirlitið alltaf afturkallað starfsleyfi fjármálafyrirtækja samkvæmt þessu frumvarpi verði það að lögum enda þótt þessi bráðabirgðaákvæði falli úr gildi, eins og hér er gerð tillaga um, um mitt ár 2010.

Herra forseti. Birkir J. Jónsson og Gunnar Svavarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Birgir Ármannsson, Pétur H. Blöndal, Árni Mathiesen og Jón Magnússon skrifa undir álitið með fyrirvara. Aðrir á þessu áliti auk þeirrar sem hér stendur eru Lúðvík Bergvinsson og Höskuldur Þórhallsson.

Ég legg til að þessu máli, máli 409, verði vísað til nefndar milli 2. og 3. umr. og jafnframt kalla ég aftur breytingartillögu, liði c og d við tölulið 2, á þskj. 858.