136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

fjármálafyrirtæki.

409. mál
[14:42]
Horfa

Frsm. viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það sé algjör misskilningur og vil ekki láta þeim orðum ómótmælt að íslensk stjórnvöld séu að tefja fyrir lausn málsins eða setja það í uppnám á þessu stigi. Ég vil minna á að þetta frumvarp, eins og hv. þingmaður nefndi, hefur verið í vinnslu frá því að nóvemberlögin voru sett og það var unnið í miklu samstarfi við réttarfarsnefnd og þá sem gerst þekkja til gjaldþrotaskiptaréttarins hér á landi. Á því stigi var frumvarpið mjög vel kynnt bæði fyrir skilanefndum og fyrir kröfuhöfum. Það er á því stigi sem frumvarpið tekur þeim miklu breytingum sem má sjá stað í bráðabirgðaákvæði nr. II um áframhaldandi greiðslustöðvun bankanna gömlu og áframhaldandi störf skilanefndanna.

Það er algjör misskilningur að kröfuhafar vilji ekki nýja einstaklinga í þetta mál því að það er algjörlega nauðsynlegt að fá nýja einstaklinga að þessu borði núna til þess að geta kallað inn kröfur vegna vanhæfis skilanefndarmanna. Slitastjórnin er algjört lykilatriði fyrir kröfuhafa, slitastjórn sem er skipuð af héraðsdómi og er þetta nýja lið inn á leikvöllinn sem hefur hæfi til þess að innkalla kröfur og úrskurða um þær. Þetta eru ríkustu hagsmunir kröfuhafanna hvort heldur þeir eru innlendir eða erlendir, fyrir nú utan að greiðslustöðvunin haldist áfram. Það varð ákveðið upphlaup vegna þessara hugmynda um sólarlagsákvæði en það breytir engu um að ýtrustu hagsmunir kröfuhafa eru fólgnir (Forseti hringir.) í slitastjórninni og því að geta lýst sínum kröfum.