136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

fjármálafyrirtæki.

409. mál
[14:57]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit auðvitað að breytingar hafa orðið á skilanefndunum en skilanefndirnar hafa ekki verið lagðar niður og ég held að það sé talsvert mikill munur á því annars vegar að breytingar verði á samsetningu nefndanna og svo því að þær verði einfaldlega lagðar niður í heild sinni og nýtt apparat taki við verkefnunum þar sem þeir sem í skilanefndunum sátu geta ekki setið vegna hæfiskrafna.

Þetta snýst um það af hálfu lánardrottna að samfella sé í starfinu. Þær breytingar sem orðið hafa á skilanefndunum hafa ekki orðið þannig að heilu skilanefndirnar hafi horfið af vettvangi í einu heldur hafa einn eða kannski tveir farið út í einu og nýir komið inn en aðrir sem fyrir voru hafa setið áfram þannig að samfella hefur verið í starfi þeirra. Það er það sem skiptir máli í þessu samhengi og um það snýst fyrirvari okkar.