136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:43]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað á opinberum vettvangi um þetta frumvarp og þeim umræðum sem farið hafa fram í þinginu um það hefur stundum verið spurt, og það hefur reyndar komið fyrir í þingsal líka, þá sjaldan að stuðningsmenn frumvarpsins sýna sig í ræðustól, hvers vegna við sjálfstæðismenn stöndum jafnhart gegn þessu frumvarpi og raun ber vitni. Menn velta fyrir sér hvað valdi því að við höfum lagst gegn því af jafnmiklum þunga og við höfum gert.

Þegar við erum að hefja þessa umræðu að nýju eftir páskahlé finnst mér rétt að fara yfir nokkur sjónarmið í því sambandi. Ég tel mig geta talað fyrir hönd félaga minna í flokknum en þó fyrst og fremst sjálfs mín í þeim efnum. Grundvallarástæðan fyrir því að við sjálfstæðismenn höfum tekið þessu máli jafnilla og raun ber vitni og lagst gegn því að það fái framgang hér í þinginu er sú að aðdragandi og vinnubrögð í málinu eru með þeim hætti að það er eins og skólabókardæmi um það hvernig ekki á að breyta stjórnarskrá, hvernig ekki á að umgangast hana. Nokkrir þættir eru viðurkenndir, hafa verið viðurkenndir hér á landi í allri umfjöllun um stjórnarskrármál og eru eftir því sem ég best veit viðurkenndir í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við hvað varðar stjórnskipun og stjórnarfar í sambandi við stjórnarskrárbreytingar.

Í fyrsta lagi er litið svo á að breyting ákvæða í stjórnarskrá sem grundvallarlög í landinu hljóti eðli málsins samkvæmt að kalla á vandaðri vinnubrögð en almennt gerist um lagafrumvörp. Auðvitað er alltaf mikilvægt að löggjöf sé vönduð og öll vinna við hana eins og best verður á kosið en hvar sem um stjórnarskrármál er fjallað er áréttað að sýna beri sérstaka vandvirkni og aðgát í umgengni við stjórnarskrárákvæði.

Í annan stað hefur ríkt nær óslitin hefð hér á landi, og víðast hvar held ég í nágrannalöndunum, um að reyna beri að að ná sem víðtækastri sátt um breytingar á stjórnarskrá. Við höfum séð að frá 1920 hefur tvisvar sinnum komið fyrir að breytingar á stjórnarskrá hafa verið afgreiddar í ósætti á Alþingi, annars vegar 1934 og hins vegar 1959. Fjöldamargar aðrar stjórnarskrárbreytingar hafa verið gerðar, þar á meðal þrjár veigamiklar á síðasta áratug, allar í sátt, og það hefur verið markmið allra þeirra stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka sem komið hafa að þessum málum að reyna að afgreiða þessi mál í sátt.

Í þriðja lagi hefur verið lögð áhersla á að málin fengju vandaða umfjöllun, bæði innan þings og utan, að tími gæfist til að vega og meta þær hugmyndir sem væru á borðinu, taka afstöðu til þeirra og að fram færi víðtæk umræða í samfélaginu um fyrirhugaðar breytingar. Það þarf ekki að leita lengi í flestum þeim textum sem skrifaðir hafa verið um stjórnarskrármál hér á landi til að sjá að þessi viðmiðun hefur alltaf verið uppi af hálfu allra þeirra stjórnlagafræðinga sem um þessi mál hafa fjallað.

Öll þessi viðmið hafa verið brotin í þessum efnum í þessari lotu, ef svo má segja. Ég ætla ekki að rifja upp feril málsins í neinum smáatriðum, hann er öllum hér vel kunnugur, en farið var fram með málið í miklu bráðræði. Það var ekki farið í samráð, hvorki við alla flokka né út í fræðasamfélagið eða gagnvart hagsmunaaðilum. Það var ekki um neitt samráð að ræða, ekki leitað eftir áliti hjá nokkrum einasta manni áður en málið kom inn í þingið, ekki nema þessum þriggja manna ráðgjafarhópi ríkisstjórnarinnar sem ber ábyrgð á því að hafa samið frumvarpstextann. Við sjálfstæðismenn í þinginu höfum rakið aðkomu okkar að málinu, það var komið til okkar með fullbúnar hugmyndir og spurt hvort við vildum vera með eða ekki. Auðvitað sjá allir að það er ekkert samráð.

Öll þessi atriði valda því að við höfum talið það skyldu okkar að fá menn í þinginu til að staldra við og hugsa betur um hvernig að þessu máli væri staðið, hvernig vinnubrögðin væru, hvaða vinnubrögð væru viðhöfð og þess háttar. Við höfum þess vegna lagst mjög hart gegn þessu og höfum vissulega flutt margar ræður til að árétta einmitt þessi sjónarmið okkar.

Síðan er annað mál að margt í frumvarpinu sjálfu er þess eðlis að það er brýn þörf á að skoða það betur. Það hefur verið nefnt varðandi 1. gr. frumvarpsins, um þjóðareign á auðlindum, að allir flokkar hafa með einhverjum hætti lýst áhuga á því að koma slíku ákvæði í stjórnarskrá. Unnið hefur verið að því marki í nokkrum nefndum og á nokkrum tímum síðustu 10 árin eða svo en enn hefur ekki tekist að finna sameiginlega niðurstöðu sem samstaða er um og ekki hefur heldur tekist að finna niðurstöðu sem fræðimenn, m.a. þeir lögfræðingar sem um þessi mál hafa fjallað, eru sammála um. Vandinn við það ákvæði sem liggur fyrir í þessu frumvarpi er auðvitað sá að margir benda á að það sé óskýrt við hvað er átt og hvað í því felist, hvaða afleiðingar lögfesting þess mundi hafa.

Varðandi 2. gr. höfum við sjálfstæðismenn lýst því yfir að við teldum rétt að breyta setningarhætti stjórnarskrár, þeim hætti sem viðhafður er varðandi breytingar á stjórnarskrá. Við höfum fallist á tillögur, t.d. í stjórnarskrárnefnd 2007, um að slíkt ferli færi fram innan þingsins og endaði síðan í þjóðaratkvæðagreiðslu með tilteknum skilyrðum og formreglum. Það má segja að sú breytingartillaga sem meiri hluti sérnefndar um stjórnarskrármál gekk frá nálgist okkar sjónarmið í þeim efnum en ég verð þó að minna á að í nokkrum atriðum er hún enn frábrugðin því sem við skrifuðum undir vorið 2007, reyndar ásamt fulltrúum allra annarra flokka. Sú niðurstaða sem þá birtist var sameiginleg niðurstaða allra þeirra sem áttu sæti í stjórnarskrárnefnd á þeim tíma, fulltrúa allra stjórnmálaflokka sem nú eiga sæti á þingi, en tillagan sem núna er á borðinu er frábrugðin í nokkrum atriðum og þyrfti að skoða það ef lengra ætti að halda með það mál.

Varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur er ég líka þeirrar skoðunar að það sé æskilegt að ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur komi inn í stjórnarskrá. Það er hins vegar ekki sama hvernig það verður gert, ekki sama hvernig að því er staðið. Ég tel að sú útgáfa sem birtist í frumvarpinu sé í rauninni ein hugmynd, ein tillaga um hvernig ganga megi frá slíku ákvæði en ég held að miklu viðameiri og dýpri umræða um þjóðaratkvæðagreiðslur og hlutverk þeirra þurfi að eiga sér stað, hvernig standa beri að þeim og hvaða skilyrði eigi að vera fyrir þeim áður en við getum samþykkt slíkt ákvæði inn í stjórnarskrá. Í stjórnarskrárnefnd 2005–2007 var töluvert fjallað um þjóðaratkvæðagreiðslur án þess að niðurstaða lægi fyrir en hins vegar lá alveg fyrir að það var áhugi í þeirri nefnd fyrir að þróa áfram hugmyndir, annars vegar um þjóðaratkvæðagreiðslur að svokölluð þjóðarfrumkvæði, frumkvæði kjósenda, og hins vegar að frumkvæði tiltekins hluta alþingismanna. Það er einmitt í samræmi við málflutning t.d. hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar sem hefur í þessari umræðu vakið athygli á þeirri leið sem er m.a. farin í Danmörku og gæti verið áhugaverður kostur.

Í fjórða lagi varðandi stjórnlagaþingið hefur það frá upphafi verið óttalegur óskapnaður. Hugmyndin um það hefur verið vanhugsuð frá upphafi og niðurstaðan er sú að það blasir við að samþykkja á breytingu sem setur á fót stjórnlagaþing sem enginn veit hvernig á að kjósa til, enginn veit hvernig (Forseti hringir.) á að starfa og í rauninni er ætlast til þess að alþingismenn samþykki ákvæði sem leiðir til fullkominnar óvissu (Forseti hringir.) og óstöðugleika í stjórnskipun landsins.