136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:45]
Horfa

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef hlýtt á hv. þm. Björn Bjarnason flytja hér allnokkrar ræður og það fer ekkert milli mála hver hans skoðun er og ég virði hana út af fyrir sig. Í ræðunni sem hann flutti núna er hann enn og aftur að hvetja til sátta í málinu og ég fyrir mitt leyti hef tekið undir þau sjónarmið að ástæða sé til þess að láta á það reyna hvort sátt náist í málinu. Ég geri það að tillögu minni núna þar sem það liggur fyrir að á mælendaskrá eru átta eða níu, allir úr þingflokki sjálfstæðismanna, að þeir dragi sig í hlé og málið komist aftur til nefndarinnar strax núna næstu klukkutímana og þar verði látið á það reyna hvort samkomulag náist í nefndinni vegna þess að samkomulag næst náttúrlega ekki héðan úr ræðustól.

Ég hef hvatt til þess að menn færu þessa leið og það er hægt að fara hana ef mælendaskrá tæmist. Þá fer málið til nefndar og við höfum þá einn eða tvo sólarhringa til að átta okkur á því hvort niðurstaða geti orðið. Þess vegna kveð ég mér hljóðs hér til þess að spyrjast fyrir um það hjá hv. þingmanni hvort hann fallist á eða vilji beita sér fyrir því að þessi leið verði reynd.