136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:47]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnarskrárn. s. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mun ekki beita mér fyrir því að umræðunni verði lokið með þessum hætti. Vilji menn hins vegar gera hlé á umræðunni án þess að tæma mælendaskrána er það mál sem ég get hugsanlega fallist á en ég er ekki til viðræðu um það að mælendaskráin verði afmáð hér í þessu máli. Ég treysti ekki meiri hlutanum í þessu máli þannig að ég sé hlynntur því. Það hefur legið fyrir af okkar hálfu að við erum tilbúin til þess að ræða þetta í nefndinni ef menn hafa áhuga á því en ekki með því að hætta þessari umræðu. Það er alveg ljóst af minni hálfu að ég mun berjast gegn því eins og ég mun berjast gegn því að Alþingi sé svipt stjórnarskrárvaldinu.

Ég tel að það sé svo mikið í húfi, og því miður treysti ég meiri hlutanum í sérnefndinni ekki vegna þeirra vinnubragða sem þar voru viðhöfð og hvernig var komið fram okkur þar þegar neitað var að ræða um þessi mál á lokastigi málsins eins og við óskuðum eftir. Þetta veldur því að ég treysti meiri hlutanum í sérnefndinni því miður ekki. Ég vil því ekki að það verði bundinn endir á þessa umræðu með því að menn taki sig út af mælendaskrá og ég mun ekki mæla með því í mínum þingflokki að það verði gert og ég mun ekki sjálfur falla frá þeim rétti mínum að tala hér áfram þangað til ég veit að þetta mál er komið í örugga höfn. Það er ekki komið í örugga höfn þótt það yrði haldinn fundur í þessari ágætu nefnd.