136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:48]
Horfa

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er nú ekki auðvelt viðureignar þegar hv. þingmaður lýsir fyrst yfir að hann vilji sátt í málinu, lýsir jafnframt yfir algjörri andstöðu sinni við samþykkt á flestum ef ekki öllum greinum frumvarpsins og hafnar þeirri sáttatillögu af minni hálfu að menn dragi sig í hlé og fari út af mælendaskrá þannig að hægt sé að koma málinu til nefndar. Þá er náttúrlega verið að stilla þeim sem eru á öndverðri skoðun upp við vegg með þeim hætti að það jaðrar við að menn eigi að gefast upp við að reyna að koma sínum málum í gegn, sem þeir hafa margir hverjir mikla sannfæringu fyrir og ég er í þeirra hópi að það sé margt mjög skynsamlegt í þessu frumvarpi sem eigi vissulega erindi inn í íslenska löggjöf.

Ég held að það sé rétt mat hjá mér að áframhaldandi umræða hér í dag og fram á nótt og hugsanlega alveg til vikuloka verði til þess að það náist engin niðurstaða í málið og það er kannski tilgangurinn hjá þeim sem nú raða sér í pontu. Þá er náttúrlega ekkert hægt annað en að taka undir það sem sagt hefur verið við þessa umræðu að sjálfstæðismenn er að halda uppi málþófi. Þeir eru að endurtaka sig hér sí og æ, þeir eru búnir að tjá sig um það hvað þeim finnst um þetta frumvarp og öll rök liggja á borðinu. Við höfum sum hver hlýtt samviskusamlega á þessar ræður. Það er ekkert nýtt að koma fram, þetta er endurtekning sem túlkast sem málþóf og það er ekki neinum, og allra síst þeim sem halda uppi málþófinu til mikils sóma.