136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:50]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnarskrárn. s. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður má kalla það það sem hann vill, varðstöðu mína um stjórnarskrárvald Alþingis, og vilji hann kenna það við málþóf er honum það frjálst. Það sem ég segi: Það er hægt að gera hlé á þessari umræðu og ræða við menn um einhverjar leiðir til sátta í málinu, ég er tilbúinn að ræða 2. gr. frumvarpsins og hugsanlega er hægt að finna einhverja lausn þar en ég heyri að krafan sem gerð er til mín varðandi það að ég setjist að slíkum viðræðum er þannig að ég sætti mig ekki við hana. Ég sætti mig ekki við það að ég afsali mér valdi til þess að tala í 2. umr. þessa máls þótt ég setjist niður og átti mig á því hvort það sé nokkur möguleiki á því að finna einhverja sameiginlega lausn. Það er sú krafa sem stendur í vegi fyrir því að unnt sé að setjast niður. Ef gerð er sú krafa að við afsölum okkur rétti okkar til málfrelsis um stjórnarskrána og varðstöðu um Alþingi til þess að ná þessari niðurstöðu er svar mitt nei. Ég mun ekki samþykkja það í mínum þingflokki og mun standa gegn því að við afsölum okkur þeim rétti í þágu þings og þjóðar að við megum ekki tala hér oftar þótt menn setjist hér niður og kanni hvort hægt sé að finna einhverja lausn á þessu máli.