136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

breyting á ýmsum lögum er varða fjármálamarkaðinn.

359. mál
[18:55]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vill þannig til eins og í sumum öðrum góðum málum að við erum algerlega sammála, ég og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, hvað þetta mál varðar og um þau meginsjónarmið sem eiga að gilda um þetta atriði.

Ég ítreka að ég tel að ekki verði neinn héraðsbrestur þó að þetta frumvarp verði ekki að lögum, þær eru heimildir fyrir hendi sem ættu að vera nægilegar til þess að fá menn til að koma fram og gera grein fyrir þeim sjónarmiðum sem mestu skipta hvað þessi atriði varðar. En eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði þegar hún rakti aðdraganda og það sem gerðist í framhaldi af efnahagshruninu varðandi sérstakan saksóknara og annað í þeim dúr er hér um að ræða vilja stjórnvalda til að koma fram löggjöf sem á að auðvelda að brot upplýsist. Þótt ég hafi þá fyrirvara sem ég lýsti í ræðu minni og í andsvörum við hv. þm. Álfheiði Ingadóttur vil ég samt taka viljann fyrir verkið og vera jákvæður gagnvart því að þau ákvæði sem viðskiptanefnd var sammála um að mæla með yrðu lögfest, ég er þeim fylgjandi. Ég tel að það skipti höfuðmáli að við á Alþingi gerum það sem í okkar valdi stendur til að löggjöfin stuðli að sem gagnsæjustu þjóðfélagi og sem auðveldastri leið til að brot megi upplýsast sem allra fyrst og hraðast.