136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

breyting á ýmsum lögum er varða fjármálamarkaðinn.

359. mál
[21:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum nefndarálit hv. viðskiptanefndar, um frumvarp til laga um breyting á ýmsum lögum er varða fjármálamarkaðinn. Það virðist vera niðurstaða nefndarinnar að fella niður nánast helminginn af því frumvarpi sem lagt var fram. Þetta er mjög athyglisvert og umsagnaraðilar hafa bent á að ekki séu fordæmi fyrir slíku varðandi fjármálamarkaðinn í Evrópu eða utan lands sem menn hafa getað fundið. Hins vegar eru til um þetta fordæmi víða í samkeppnislögum.

Nefndin leggur til að felld séu niður ákvæði um að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að kæra ekki til lögreglu hafi eitthvert fyrirtæki eða einstaklingur haft frumkvæði að því að láta eftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota er varðað geta sektum eða fangelsi samkvæmt 12. gr. Þarna tekur nefndin tillit til þeirra umsagna sem leiða kannski í ljós sjálfsagða niðurstöðu — maður gæti óttast að hann sé að verða skotspónn rannsóknar þar sem hann er einn að verki í afbroti sínu. Honum er þá í lófa lagið að ganga til Fjármálaeftirlitsins og upplýsa málið. Þar með er hann eiginlega laus allra mála. Það er, herra forseti, alveg ófært þegar um slíkt er að ræða og mér finnst að nefndin hefði líka, í þeim greinum sem eftir sitja, þurft að taka á þessum vanda. Mér finnst hún ekki gera það, reyndar er verið að heimila að falla frá stjórnvaldssektarákvörðunum á hendur lögaðila eða einstaklingi ef viðkomandi aðili er fyrstur til að láta Fjármálaeftirlitinu upplýsingar í té. Menn geta enn þá losnað við stjórnvaldssektarákvarðanir með því að ganga á fund yfirvalda og játa sig seka. Ég er ekki viss um að þetta sé nægilegt og mér finnst að nefndin hefði átt að taka á því að það þurfi að vera fleiri aðilar að brotinu til að hægt sé að veita þessa eftirgjöf.

Allt er þetta í raun niðurstaðan af því sem gerðist í haust og því sem menn óttast að sé í gangi í fjármálageiranum — við sjáum því miður merki um það mjög víða að hlutir eru að koma í ljós sem hugsanlega eru lagabrot og menn eru sem sagt núna að reyna að örva uppljóstranir á þessum brotum, sem menn ímynda sér að geti verið, með því að veita uppgjöf saka þeim sem koma fyrstir og upplýsa um málið. Ég er ekki viss nema þetta kunni að reynast góð lausn þegar um er að ræða stór mál sem margir aðilar koma að. Þetta getur verið snjöll leið til að upplýsa þung og erfið mál sem kannski er erfitt að upplýsa. En það á í sjálfu sér miklu frekar við í samkeppnismálum þar sem menn hafa þetta fordæmi heldur en á fjármálamarkaði. Í samkeppnismálum felast brot yfirleitt í því að tveir eða fleiri aðilar í samkeppni ná samkomulagi um að hafa með sér samráð. Eðli máls samkvæmt eru þá alltaf fleiri en einn aðili að brjóta lögin og því er eðlilegt að veita einum þeirra uppgjöf saka ef hann upplýsir um málið á kostnað hinna. Á fjármálamarkaðinum getur verið um það að ræða að það sé einn aðili sem stundar brotið og þess vegna á þetta ekki alveg við. Í sumum umsögnum er þess sérstaklega getið að fresta ætti þessu máli og kanna hvers vegna svipuð lög hafa ekki fundist í erlendum lögum á sviði fjármálamarkaðarins.

Frumvarpið ber kannski dálítinn keim af því að menn eru að vinna mjög hratt að ýmsum málum og hætta er á því að löggjafanum verði á mistök við slíkar aðstæður. Þar sem nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að hægt sé að fella niður nánast helminginn af frumvarpinu held ég að hún hefði átt að bíða með að afgreiða málið. Ég sé ekki að það breyti neitt óskaplega miklu, herra forseti, hvort þetta verður samþykkt núna eða eftir að nýtt þing er komið saman sem getur orðið eftir tvær til þrjár vikur, fjórar vikur kannski eða fimm, eftir því hvernig gengur að mynda nýja ríkisstjórn. Það geta orðið tveir mánuðir en alla vega ekki miklu meira og þá er kannski búið að kanna betur hvernig á því stendur að útlendingar hafa ekki uppgötvað þessa fínu leið til að upplýsa um brot á þessu sviði. Kannski er það vegna þess að minni þörf hefur verið þar en er núna hér á landi og líka vegna þess að kannski eru þeir agnúar á þessu að brotin eru oft einstaklingsbrot og því yrði eingöngu um það að ræða að menn mundu fría sjálfa sig í staðinn fyrir að upplýsa um brot annarra. Það er náttúrlega meginmálið í því að gefa mönnum upp sakir, þeim sem segja frá, að upplýsa um þung og flókin mál sem mjög margir koma að.

Við erum hér að breyta mjög mörgum lögum og það er spurning hvort sú breyting sé tæmandi, hvort eitthvað hafi orðið eftir. Ég gat ekki lesið það út úr nefndarálitinu að nefndin hafi farið í sérstaka skoðun á því hvort einhver angi fjármálamarkaðarins hafi orðið eftir. Talað er um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, lögum um verðbréfaviðskipti, lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, lögum um vátryggingastarfsemi, lögum um miðlun vátrygginga, lögum um rafræna eignaskráningu verðbréfa, lögum um kauphallir og lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi — það er verið að breyta þarna mjög mörgum mismunandi lögum. Eins og ég gat um áðan er ákveðin hætta á því að eitthvað hafi dottið út fyrir, eitthvað hafi orðið eftir, í þessum flókna geira, hann er orðinn mjög flókinn nú til dags og eins þarf að athuga hvað gerir það að verkum að menn beita ekki þessum ákvæðum erlendis.

Það sem eftir situr þegar nefndin hefur farið höndum um frumvarpið er það að hún fellir út alls staðar þar sem samhljóða er verið að segja að heimilt sé að kæra ekki til lögreglu, þ.e. það situr þá eftir að það verður að kæra menn. Menn búa við það að ef brotið er alvarlegt verða þeir kærðir ef þeir upplýsa það, sem er ákveðinn dragbítur á það að menn upplýsi um mál sem um er að ræða. Það stendur líka eftir hjá nefndinni að heimilt er að falla frá stjórnvaldssektarákvörðunum eða lækka þær ef sá sem í hlut á gefur þetta upp. Ég er ekki alveg viss um að þetta sé nægilegt til að fá menn til að upplýsa mál. Eftir sem áður vofir yfir þeim að ef brotið reynist vera alvarlegra að mati þeirra sem rannsaka málið verði viðkomandi kærðir til lögreglu og það gæti orðið til þess að menn verða ekki eins fúsir að upplýsa.

Það sem mér finnst kannski mest um vert í þessu máli, herra forseti, er það að menn virðast vera að fara út á nýja braut hér á landi, uppgötva nýjan sannleika sem ekki hefur uppgötvast erlendis og mér finnst það dálítið varasamt. Mér finnst hann líka varasamur sá hraði sem er á þessu máli eins og öllum málum sem menn eru að vinna úr, kannski eðlilega af því að þetta er starfsstjórn til mjög fárra daga. Það er dálítil hætta á því að gerð verði einhver mistök í þessari lagasetningu og ég vil undirstrika það aftur.

Svo er það hins vegar einn þáttur sem maður er dálítið undrandi á. Nú eru að bresta á kosningar og kjósendur vilja fara að fá frambjóðendur út í kjördæmin, og þá kannski þingmenn sem ætla að bjóða sig fram aftur, til að upplýsa kjósendur um stefnu flokkanna og um stefnu sína. Það hefur ekki getað orðið vegna þess að hér liggja fyrir mörg mál og þá finnst mér þetta mál ekki endilega vera þess eðlis að það sé nr. eitt, tvö og þrjú til að koma atvinnulífinu í gang og gæta að hagsmunum heimilanna eins og margir hafa talað um að nauðsynlegt sé að gera. Mér finnst forgangsröðun hæstv. ríkisstjórnar ekki nægilega góð. Hún er í rauninni ekki að forgangsraða í þá átt að það sem hvílir mest á landsmönnum og kjósendum öllum. Þetta mál varðar ekki atvinnuleysið, uppbyggingu fyrirtækja, endurreisn bankakerfisins o.s.frv.

Ég hefði gjarnan viljað sjá frá hæstv. ríkisstjórn mál sem koma beint að því að gera eitthvað í hlutunum og breyta einhverju fyrir heimilin í landinu en ekki eins og þau frumvörp sem við höfum séð undanfarið, breyting á stjórnarskránni hefur mikið verið til umræðu, breyting á Seðlabankanum var mikið mál sem varð til þess að nú er Seðlabankinn alfarið skipaður af hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur og alfarið á hennar ábyrgð. Þeir háu stýrivextir sem eru í dag, óskaplega háir raunvextir, í þessum mánuði erum við að tala um 28% raunvexti, eru á ábyrgð hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur. Maður spyr sig: Eru það forgangsmálin í landinu að setja upp nýjan seðlabanka — seðlabanka Jóhönnu, eða seðlabanka hæstv. forsætisráðherra — sem leiðir svo til óskaplega hárra raunvaxta sem stýrivextir gefa af sér?

Ég er dálítið undrandi á þessu og frumvarpið sem við ræðum hér er einn angi af því að menn eru að forgangsraða rangt. Þetta mál má alveg bíða eftir nýju þingi eða jafnvel til haustsins. Ég get ekki séð að menn fari að upplýsa margt í kjölfarið og það eins og skot. Það má vel vera að menn hafi séð einhvern anga á þessu máli sem gerir það að verkum að allt í einu er fari að upplýsast fullt af málum núna fyrir haustið.