136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

breyting á ýmsum lögum er varða fjármálamarkaðinn.

359. mál
[22:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er alltaf dálítið hættulegt að taka upp eitthvað sem hvergi nokkurs staðar er til og menn kanna ekki af hverju það er ekki til. Ég gat ekki séð að nefndin hefði kannað það sérstaklega af hverju þetta ákvæði er ekki til annars staðar. Hins vegar er ljóst að sérstakur saksóknari hefur fengið geysimiklar heimildir og ég held að almenn samstaða hafi verið um það af því að menn vilja upplýsa um það sem hefur farið úrskeiðis. Ef einhver lögbrot hafa átt sér stað á að sjálfsögðu að upplýsa um það og ég held að allir séu með á því.

Það er rétt varðandi stýrivextina að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn krafðist þess í 18. gr. að stýrivextirnir yrðu hafðir háir, en þá voru þeir líka neikvæðir, herra forseti. Hraði verðbólgunnar á þessum mánuðum var meiri en 18%. Hraði verðbólgunnar í október, nóvember og desember var meiri en 18%, stýrivextirnir voru því neikvæðir.

Svo gerist það eftir áramótin, í janúar og febrúar, að stýrivextirnir verða jákvæðir, 10%, sem þykja ágætisraunvextir, en svo í mars og apríl keyrir um þverbak. Þetta er ákvörðun peningastefnunefndarinnar — maður er ekki búinn að læra öll þessi nýju orð sem voru sett með seðlabankalögunum — sem alfarið er skipuð af hæstv. forsætisráðherra. Núna eru stýrivextirnir orðnir óheyrilega háir og ég efast um að aðrir eins stýrivextir finnist í einum mánuði frá upphafi, ég hef reyndar ekki kannað það, en mjög áhugavert væri að kanna það því að við erum bæði verðhjöðnun í mánuðinum og geysiháa stýrivexti.

Svo er náttúrlega dálítið leiðinlegt að hlusta alltaf á 18 ára frasana, að Sjálfstæðisflokkurinn sé búinn að vera við stjórn í 18 ár. Hann var ekki einn í stjórn, og hafi hann verið einn í stjórn ber að þakka honum gífurlega hækkun launa á Íslandi (Gripið fram í.) sem hvergi nokkurs staðar er annað eins, og það ber líka að þakka honum gífurlega aukin framlög til velferðarmála, um 80% raunvöxt á framlögum til velferðarmála. Hafi Sjálfstæðisflokkurinn verið einn í stjórn ber að þakka honum þetta.