136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:46]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þau verða alltaf furðulegri og furðulegri vinnubrögðin á Alþingi Íslendinga. Nú vorum við í miðri umræðu um frumvarp sem varðar fjármálamarkaðinn og mikilvægar breytingar á lögum þar um. Þá grípur hæstv. forseti til þess ráðs að stöðva umræðuna þegar hv. þm. Jón Magnússon var að gera sig reiðubúinn til að fjalla um það mál. Ég tek undir það með hv. þm. Birgi Ármannssyni að æskilegt væri ef flutningsmenn frumvarpsins, og þá kannski fyrst og síðast hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, yrðu viðstaddir umræðuna ef ætlunin er að taka málið á dagskrá. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. forseti Alþingis blandi sér í þá umræðu. Ég hef saknað þess að hann segi hug sinn til málsins. Ég óska eftir upplýsingum um það (Forseti hringir.) hvort hæstv. forseti ætli að viðra skoðanir (Forseti hringir.) sínar á efnisatriðum þessa máls.