136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:54]
Horfa

Jón Magnússon (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil segja það við hv. þm. Lúðvík Bergvinsson að því fer fjarri að ég telji að verið sé að leggja mig í einelti þó að ég sé næstur á mælendaskrá bæði í þessu máli og hafi beðið eftir því að komast að til að ræða stjórnarskipunarlögin frá kl. 4 í dag, nema þetta væri þá einhvers konar einelti í skjóli félagslegrar samhjálpar þar sem menn væru að reyna að koma ákveðnum hlutum áfram á fölskum forsendum.

En ég vek athygli á því sem aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa vakið athygli á að það er enginn flutningsmaður stjórnarskipunarlagafrumvarpsins í salnum. Ég hefði talið eðlilegt að þegar við förum að ræða jafnmikilvægt frumvarp og um breytingar á stjórnarskipunarlögum þá væri alla vega einhver og helst allir flutningsmennirnir viðstaddir. Mér finnst það til vansa fyrir þingið, þjóðina og stjórnarskrána að flutningsmenn frumvarpsins skuli ekki vera viðstaddir. Þá hlýtur maður líka að spyrja sig að því, (Forseti hringir.) miðað við yfirlýsingar formanns þingflokks Framsóknarflokksins: Hvaða frumvarp erum við að fara að ræða? Erum við að fara að ræða (Forseti hringir.) frumvarp þar sem er búið að falla frá ákvæðum eða tillögum um stjórnlagaþing?