136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:56]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það kann að vera að fundarstjórn forseta sé skörugleg en skýr finnst mér hún ekki alltaf, a.m.k. ekki nægilega til að ég skilji. Að vísu verður hann að virða mér það til vorkunnar að ég er varaþingmaður og ekki mjög þingvön en ég skil ekki af hverju má ekki segja okkur hvenær við eigum að komast heim til að sofa í nótt eða þá að segja okkur að við eigum ekkert að komast heim, það eru út af fyrir sig upplýsingar, það er allt í lagi, þá veit maður það. En það er ekki boðlegt svar að það fari eftir því hvenær mælendaskráin tæmist. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, að ég á eftir að segja mjög margt um þetta frumvarp, m.a. um stjórnlagaþingið og þær makalausu tillögur sem þar eru.

Nýjustu fréttir í fjölmiðlum herma að Framsóknarflokkurinn sé ekki lengur með stjórnlagaþingið og þá er bara kjánalegt að maður eyði tíma í að ræða það. Ég spyr enn og aftur: Af hverju má ekki fresta þessari umræðu og fara með þetta í nefndina þannig að við vitum þá hvaða frumvarp við erum að ræða í 2. umr.?