136. löggjafarþing — 131. fundur,  15. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu tók ákvörðun um að hafa eftirlit með kosningum á Íslandi og er það í sjálfu sér ágætt en mér skilst að eitt af aðalmálunum sem ollu því að þeir vildu skoða kosningar á Íslandi sé eignarhald á fjölmiðlum sem virðist vera allt of samþjappað að þeirra mati.

Það er fleira sem ég vildi gjarnan benda hæstv. forseta á: Í fyrsta lagi ræðum við hér breytingar á stjórnarskrá sem á að harka í gegn með engum fyrirvara, á litlum tíma. Svo erum við með kosningabaráttu sem á sér ekki stað, það eru bara örfáir dagar til kosninga og við erum enn þá að fjalla um stjórnarskrármálið um miðjar nætur.

Svo eru það fjölmiðlarnir. Mér finnst eins og margt sem ég segi komist bara ekki í gegn. Ég er búinn að senda fjölmiðlum ræðurnar mínar en þær fara samt ekki í gegn. Það er eins og orðin stoppi fyrir framan andlitið á mér.