136. löggjafarþing — 131. fundur,  15. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:27]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Fyrir u.þ.b. hálfri klukkustundu spurði ég hæstv. forseta þegar tilkynnt var að umræðan um stjórnarskipunarlögin væri að hefjast, hvort fulltrúum allra þingflokka hefði verið gerð grein fyrir því að þessi umræða væri að hefjast nú um miðnætti. Ég geri ráð fyrir því að það eigi sér einhverjar skýringar að hér í húsi eru ekki fulltrúar tveggja flokka, Framsóknarflokksins og Frjálslynda flokksins sem eru þó meðal þeirra flokka sem standa að því frumvarpi sem nú er rætt. Var fulltrúum þessara flokka ekki kunnugt um að fara ætti fram umræða um þessi mál? Ef þeim var kunnugt um það velti ég fyrir mér hvernig þau boð bárust þeim.

Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem komum í þingsal til að ræða annað mál, fréttum það bara þegar forseti lýsti því skyndilega úr forsetastóli að taka ætti stjórnarskipunarlögin á dagskrá og ég velti fyrir mér hvernig sé með hina flokkana og hvað skýri fjarveru þeirra.