136. löggjafarþing — 131. fundur,  15. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:38]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það verður að segjast eins og er að sú umræða sem hér fer fram er mjög athyglisverð, þ.e. efnisumræða um stjórnarskrána undir liðnum um fundarstjórn forseta. Svo mikið liggur mönnum á að ræða málið að þeir ræða það undir öllum þeim liðum sem þeir mögulega geta rætt það, en ég vil nú ekki verða til þess að koma í veg fyrir að málið verði rætt.

Ég vil líka nefna að ekki hefur komið fram nein breytingartillaga um að fella 4. gr. brott. Hins vegar kom fram hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur í dag að ef það mætti verða til þess að ná sátt í þeim deilum sem hér hafa verið og því málþófi sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa staðið fyrir, að þessi grein félli brott, þá væri Framsóknarflokkurinn tilbúinn að standa að slíkri sátt. Mér fannst það vera drengilegt af Framsóknarflokknum að leggja þetta fram. Þess vegna finnst mér það ekki alveg (Forseti hringir.) sanngjarnt að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hundskammi (Forseti hringir.) framsóknarmenn og hv. þingmenn þess flokks fyrir að leggja þetta inn í málið í því skyni að leita sátta.