136. löggjafarþing — 131. fundur,  15. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:59]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér við 2. umr. breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands í þeim búningi sem þær hafa verið kynntar þó að við höfum margsinnis bent á að margt bendi til að menn séu hættir við 4. gr. frumvarpsins. Nema það sé rétt, sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson var að benda á, að þó svo Framsóknarflokkurinn sé hættur við þetta ákvæði, sem var hans hjartans mál, séu það Samfylkingin og Vinstri grænir sem nú vilji endilega koma þessu ákvæði í gegn. Það hlýtur að skýrast í þessari umræðu hvernig staðan er í þessu máli.

Ég vil taka undir athugasemdir sem hv. þm. Jón Magnússon gerði við það að við skulum aftur og aftur vera að ræða hér stjórnarskrárbreytingar í skjóli nætur, á þeim tíma sólarhrings sem klárt er að fæstir eru að fylgjast með. Það er hins vegar mjög skiljanlegt að það skuli gert. Ég skil vel að ríkisstjórnin skuli reyna að fela það eins og hún mögulega getur að staðið skuli að stjórnarskrárbreytingum eins og hér hefur verið gert. Þeir hafa nú, þeir ágætu einstaklingar sem nú eru í ríkisstjórn, fordæmt harkalega sambærileg vinnubrögð þegar þau hafa komið frá öðrum að það er mjög skiljanlegt að þeir reyni að fela þau eins og nokkur kostur er.

Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að mótmæla því harðlega að um sé að ræða málþóf af hálfu okkar sjálfstæðismanna hvað varðar umræður um stjórnarskrána og þær stjórnarskrárbreytingar sem verið er að reyna að knýja fram í fullkomnu ósamkomulagi á þinginu. Margsinnis hefur verið bent á að þau vinnubrögð sem ríkisstjórnin viðhefur hér með stuðningi Framsóknarflokksins eru einsdæmi í sögu lýðveldisins. Hér er verið að brjóta allar reglur um vinnubrögð sem settar hafa verið um stjórnarskrárbreytingar. Þessu hafa engir lýst betur en þingmenn Vinstri grænna. Ég skil það því vel að þeir vilji ekki einu sinni útskýra það hvað hafi breyst frá því að þeir kvörtuðu svo sárlega yfir þessum sömu vinnubrögðum.

Ég mótmæli því harðlega, virðulegi forseti, að þetta sé málþóf. Við ræðum hér stjórnarskrána sem er helgasta plagg í löggjöf hvers lands, okkar líka. Það verður að gefa þeirri umræðu tíma. Það sést best á þeim breytingum sem meiri hlutinn er að gera sjálfur að hann ætlar ekkert að láta slík vinnubrögð viðgangast aftur, samanber það að í breytingartillögunum sem nú er búið að leggja fram, á þskj. 882, er í fyrsta lagi lagt til að stjórnarskrárbreyting skuli ræðast í fjórum umræðum og a.m.k. ein vika sé á milli umræðna. Við munum ekki ná því markmiði í þessari umferð þannig að meira að segja þær breytingar sem meiri hlutinn leggur til, í þeim felst fordæming á þeim vinnubrögðum sem meiri hlutinn viðhefur núna til viðbótar við þá almennu fordæmingu sem þeir sjálfir lýstu best fyrir tveimur árum þegar þáverandi ríkisstjórn ætlaði að reyna að knýja fram mál með sama hætti.

En út af stjórnlagaþinginu, og af því að okkur tekst ekki að fá það upplýst hvort 4. gr. sé enn inni í frumvarpinu eða ekki, verður maður að ganga út frá því að svo sé. Þá ætla ég að taka upp þann þráð sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson rakti hér varðandi stjórnlagaþingið.

Það er með ólíkindum hvernig menn hafa stillt því dæmi upp. Í fyrsta lagi er fráleitt að nokkrum skuli detta í hug að samtímis starfi í landinu tvö stjórnlagaþing sem bæði hafi sömu völd og sömu heimildir. En samt sem áður er munur á þessum þingum eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson benti á. Kjörgengi fulltrúa á stjórnlagaþinginu, sem er með það sérstaka verkefni að semja nýja stjórnarskrá, á að ákveða í einhverjum almennum lögum. Hv. Alþingi, sem ekki er treyst til að semja stjórnarskrána, er þá allt í einu treyst til að ákveða kjörgengi, ákveða kosningareglur, ákveða hvernig eigi að standa að kjöri. Hvernig á maður að átta sig á þessu?

Það er ekki boðlegt að þetta skuli sett fram með þeim hætti sem hér er enda hafa stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar m.a.s. bent á að þessi stjórnlagaþingsumræða væri alls ekki búin, menn væru ekki búnir að hugsa það í þaula hvernig þetta stjórnlagaþing ætti að vera. Sú fullyrðing og sú barnslega bjartsýni virðist fylla hug þeirra sem vilja að stjórnlagaþing geti samið stjórnarskrá. Hvernig dettur fólki þetta í hug? Það hefur verið talað um að breyta stjórnarskránni frá lýðveldisstofnun. Samfellt frá þeim tíma hefur ein eða önnur nefnd verið að störfum til þess að breyta stjórnarskránni. Sú síðasta var skipuð 2005 og starfaði hún í tvö ár. Sú nefnd vann mikið starf og mjög gagnlegt og örugglega er hægt að byggja á því varðandi áframhaldandi breytingar. En það eina sem tveggja ára starf hennar leiddi af sér var samstaða um breytingu á 79. gr., og það er svo merkilegt að það er ekki einu sinni eins og meiri hlutinn taki 79. gr. eins og þá var samstaða um, þó að þær breytingar sem hér er verið að leggja til í breytingartillögunum færi 79. gr. vissulega nær því sem samstaða var um árið 2007.

Af þessu er, virðulegi forseti, ekki hægt að draga neina aðra ályktun en þá, sem ýmsir umsagnaraðilar benda á, að í raun sé engin knýjandi þörf á því að breyta stjórnarskránni. Fjölmargir þeirra vara reyndar við því að við förum út í þann leik á þeim umrótatímum sem við erum að ganga í gegnum núna, vara við því að við förum í þann leik að stokka upp stjórnarskrána, og síst af öllu ættum við að stokka hana upp með þeim hætti sem hér er lagt til, þ.e. að tvö stjórnlagaþing verði í landinu.

Varðandi kjörgengi fulltrúa má spyrja: Af hverju eiga þingmenn og varaþingmenn ekki að geta boðið sig fram til stjórnlagaþings? Hvað bannar það? Hvaða prinsipp eru þar undirliggjandi? (Gripið fram í: Mannréttindabrot.) Maður hefði haldið að virðing þingmanna fyrir sínu eigin starfi væri svo mikil að þeir teldu að þeir ættu að vera hæfir til þess, a.m.k. jafnhæfir og aðrir einstaklingar í landinu.

En síðan er líka gert ráð fyrir því — og kemur t.d. fram í breytingartillögunni við 4. gr., samanber 4. töluliður í þskj. 882, þ.e. 3. mgr. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stjórnlagaþing skal skipað 41 þjóðkjörnum fulltrúa og jafnmörgum til vara. Um kjörgengi og kosningu á þingið og skipulag þess skal mælt fyrir í sérstökum lögum“ — það er makalaust að þetta skuli gert í almennum lögum en ekki í stjórnarskrá, eins og ég hef áður nefnt — „þar sem m.a. verði settar reglur til að jafna sem mest hlutföll á milli kynjanna í hópi þingfulltrúa.“

Þarna er verið að opna fyrir stórhættulega aðferð varðandi niðurstöður kosninga, eitthvert handahóf. Ekki ætla ég að mæla gegn því að með einhverjum hætti verði reynt að jafna hlutföll kynjanna en ætla menn að opna fyrir það að eftir að kosningar eru búnar megi henda út sumum fulltrúum, sem voru löglega kosnir, af því þeir eru ekki af réttu kyni eða ekki af réttu landsvæði eða með réttan starfstitil? Þarna er verið að opna fyrir stórhættulega leið sem getur leitt okkur út í algjöra vitleysu. Þarna er bara lítið dæmi um það hvað þessar tillögur um stjórnlagaþing eru ótrúlega illa ígrundaðar og vanhugsaðar. En tími minn er búinn í bili þannig að ég tek upp þráðinn í næstu ræðu minni.