136. löggjafarþing — 131. fundur,  15. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[01:22]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Það hefur verið rætt nokkuð lengi á Alþingi og í rauninni ekki vanþörf á. Ég vil að sjálfsögðu að það verði kannað, herra forseti, hversu lengi við verðum hér vegna þess að þingmenn þurfa, eins og kom fram hjá hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur, að sinna ýmsum öðrum verkum og það var jú líka ætlun fyrrverandi forseta að standa þannig að þingstörfum að þetta væri fjölskylduvænn vinnustaður. Við sjáum að hér eru ekki við umræðuna, núna þegar klukkan er orðin hálftvö, þingmenn sem eru með ung börn, þeir geta hreinlega ekki tekið þátt í þessari umræðu. Það háttar þannig til með þann þingmann sem hér stendur að hann þarf að fara á fund Norðurlandaráðs í fyrramálið og því rennur saman vinnudagurinn. Ég hef samt áhuga á að taka þátt í þessari umræðu og fylgjast með því sem kollegar mínir eru að fjalla um.

Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að við notum þær stundir sem þessi mál eru á dagskrá til að fara vel og rækilega yfir málið og það hefur að sjálfsögðu verið gert. En það er nú svo, herra forseti, að það eru sí og æ að koma nýir vinklar, ný mál upp er varða þetta frumvarp og það síðasta er, eins og hér hefur komið fram, að nú á sér stað umræða í fjölmiðlum þar sem framsóknarmenn hafa komið með ágætar tillögur að breytingum á frumvarpinu en þær breytingar hafa ekki náð inn í þingsal með þeim hætti sem eðlilegt væri, sem væri þá í formi breytingartillögu. Það hefur einvörðungu heyrst í fjölmiðlum að Framsóknarflokkurinn sé tilbúinn að leggja það af mörkum til að þetta mál leysist að stjórnlagaþingið verði tekið út.

Ég fagna því í sjálfu sér. Ég hef eytt nokkrum orðum að því að mér finnist ekki rökrétt hvernig stjórnlagaþingið er fram sett í þessu frumvarpi og það eru ýmis efnisatriði sem ég ætla að fara nánar út í varðandi það mál. Því er afskaplega nauðsynlegt að það komi fram breytingartillaga frá þeim aðilum sem hugsa sér annaðhvort að taka 4. gr. alveg út eða breyta henni með einhverjum hætti. Það væri í sjálfu sér rökrétt að til þessa fundar mættu þeir aðilar sem hafa kynnt þessar breytingar sínar í fjölmiðlum. Eins og við þekkjum, herra forseti, eru fjölmiðlarnir oft nefndir fjórða valdið í þjóðfélagsskipan okkar og því væri eðlilegt að þeir fulltrúar Framsóknarflokksins sem hafa kynnt sín mál í fjölmiðlum tækju þátt í umræðunni einmitt af þeirri ástæðu.

Rétt er að nefna það í þessari stuttu ræðu að síðustu 50 árin eða frá 1959 hefur stjórnarskránni verið breytt nokkrum sinnum en alltaf í fullri sátt meðal stjórnmálaflokkanna á Alþingi. Við upplifum það hér í fyrsta skipti að slíkt mál er tekið út úr nefnd í fullkominni ósátt við fulltrúa á Alþingi, stóran hluta, heilan þingflokk, stærsta þingflokk Alþingis, Sjálfstæðisflokkinn, og það eru jafnframt aðrir einstaklingar sem hafa haft efasemdir um þetta mál. Það er því algert nýmæli að við skulum vera að afgreiða þetta mál með þeim hætti sem raun ber vitni.

Það eru nokkur atriði, herra forseti, sem ég vildi nefna varðandi stjórnlagaþingið. Eðli málsins samkvæmt er eðlilegt að við ræðum það örlítið hér þar sem það hefur verið svo mikið í fréttum sem raun ber vitni. Það eru nokkur atriði sem ég hefði viljað fá skoðun og skýringu á sem mér finnst vanta í frumvarpið og hugsanlega eru það einhverjar breytingar sem framsóknarmenn eru með eins og það að stjórnlagaþing setji sér sjálft starfsreglur. Við höfum nú fordæmt það á þinginu að þegar við setjum lög veitum við ráðherrum reglugerðarheimildir og mörgum hefur fundist að Alþingi væri að framselja fullmikið vald til framkvæmdarvaldsins með því að heimila það. En hér er í rauninni bara sagt berum orðum: „Stjórnlagaþing setur sér sjálft starfsreglur.“

Það er ansi mikið sem Alþingi, æðsta stofnun lýðveldisins, er að afsala sér þarna og það heldur ýmislegt áfram í svipuðum dúr í frumvarpinu um stjórnlagaþingið. Það segir m.a. í síðustu setningu 4. gr.:

„Stjórnlagaþing skal setja nánari reglur um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar.“

Mér finnst með ólíkindum að þetta sé svo opið sem raun ber vitni, að stjórnlagaþing eigi fyrst að setja sér reglur og ákveða sjálft hvernig það vinnur og síðan skuli það setja nánari reglur um þjóðaratkvæðagreiðslur. Auðvitað á Alþingi að setja slíkar reglur, það gefur augaleið að það er Alþingi sem á að gera það.

Í breytingartillögu er fjallað um kjör til stjórnlagaþings og verið að leiða líkur að því að það eigi að binda það einhvern veginn þannig að einstakir landshlutar eða landsbyggðin fái einhvern rétt eða öryggi fyrir því að koma að fulltrúum á stjórnlagaþing. Ég átta mig hreinlega ekki á hvernig það mál er hugsað nákvæmlega. Ég get lesið það út úr þeim gögnum sem hér eru að menn hafi áhyggjur af því að það gæti orðið sterkt og öflugt vald á stórhöfuðborgarsvæðinu, þar er jú flest fólkið, og þess vegna þyrfti að taka tillit til þess að þeir sem á landsbyggðinni búa eigi einhverja fulltrúa af þeim 41 sem um ræðir. Það finnst mér hreinlega vanta að sé klárað, bæði í frumvarpinu sjálfu og þeim breytingartillögum sem hér liggja fyrir. Ég tel mjög nauðsynlegt að menn viti það þegar þessi umræða fer fram hvernig málum eigi að vera fyrir komið nákvæmlega. Ég tel þess vegna gríðarlega mikilvægt áður en þessari umræðu lýkur, herra forseti, að þeir flutningsmenn sem eru að tjá sig opinberlega í fjölmiðlum í dag komi og skýri mál sitt hér. Í rauninni hefði það átt að vera krafa þingsins að fá þessa aðila inn á fundinn til að fara yfir málið og kynna sín sjónarmið og koma þeim þannig fram að þeir þingmenn sem taka þátt í umræðunni geti áttað sig á þeim með fyrirspurnum og andsvörum við ræður þeirra sem mundu vilja kynna þessi mál.

Mér sýnist í rauninni að allt frá upphafi þessa máls sé málatilbúnaður með þeim hætti að ekki muni nást farsæl lausn, hún muni ekki finnast. Þess vegna nefndi ég það fyrr í nótt, herra forseti, að mér finnist vera algjör afturfótafæðing á þessu frumvarpi og þá þarf að leita læknisaðstoðar ef vel á að fara. Það er nákvæmlega það sem við þurfum að gera. Við þurfum að forðast stórslys með því að láta þetta mál ekki ná fram að ganga og verða samþykkt á hinu háa Alþingi. Lýðveldið Ísland og lýðræðisskipulag hér er miklu mikilvægara en að breyta stjórnarskrá í þá átt sem hér er lagt til.