136. löggjafarþing — 131. fundur,  15. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[01:42]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum áfram um stjórnarskrána. Þar sem ýmsir þingmenn, sem talað hafa frá því ég talaði síðast, hafa fjallað nánar um stjórnlagaþingið ætla ég að geyma frekari umræðu um það og vinda mér í 1. gr., ekki síst í ljósi þess að í andsvari hæstv. forsætisráðherra við mig á föstudegi fyrir rúmri viku hreykti hæstv. forsætisráðherra sér af því að það þyrfti kvenforsætisráðherra til þess að knýja það, í gegn í andstöðu við stærsta þingflokkinn á þinginu, að setja inn í stjórnarskrána auðlindaákvæði og rökstuddi það með þeim hætti að svo mikil samstaða væri um að ákvæði af því tagi ætti að koma í stjórnarskrána. Þetta væri búið að ræða í karlanefndum svo árum og næstum því áratugum skipti en það hefði ekki verið fyrr en hún varð forsætisráðherra að nokkur hafði kjark til þess að knýja það í gegn án fullkominnar samstöðu þar um.

Út af þessum ummælum, og raunar öðrum ummælum sem ýmsir hv. þingmenn hafa látið falla eins og t.d. hv. þm. Ellert B. Schram fyrr í umræðunni í kvöld, held ég að ástæða sé til að skoða aðeins það sem umsagnaraðilar hafa sagt um 1. gr. frumvarps til stjórnarskipunarlaga. Því eins og þeir stjórnarsinnar sem tjáð sig hafa um þetta mætti ætla að um 1. gr. sé enginn ágreiningur. Þvert á móti séu eingöngu sjálfstæðismenn á móti henni og látið hefur verið að því liggja að í andstöðu okkar við 1. gr. séum við að ganga erinda t.d. útgerðarmanna og einhverra sérhagsmunahópa sem hafi fengið okkur til þess. Þetta er auðvitað alrangt, virðulegi forseti. Umsagnirnar sem borist hafa um frumvarpið sýna að þetta er ekki rétt.

Það sem fyrst er nauðsynlegt að taka fram eru þær breytingar sem meiri hlutinn stendur fyrir á 1. gr. Þær sýna best af öllu hvers konar hrákasmíði 1. gr. er. Í þeim breytingartillögum sem meiri hluti sérnefndar um stjórnarskrána hefur lagt fram er í raun og veru ekkert eftir af 1. gr. nema 1. mgr. Það er nefnilega lagt til að 2. mgr., ef frá er talinn lokamálsliður hennar, og öll 3. mgr. fari út. Og af hverju er það? Jú. Það er af því að þeir umsagnaraðilar sem gerst þekkja til mæltu eindregið gegn þessum atriðum og komu með ábendingar af þeim toga að meira að segja stjórnarmeirihluti, hversu ákveðinn sem hann er í að þvinga þetta í gegn, treysti sér ekki til að gera það gegn svo eindregnum og vel rökstuddum athugasemdum.

En jafnvel við þann part 1. gr. sem þá er eftir eru menn ekki sáttir. Ég ætla að byrja á að grípa niður í umsögn Davíðs Þórs Björgvinssonar, dómara við Mannréttindadómstól Evrópu og prófessors við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Ég tek eingöngu það sem hann gerir athugasemd við, þ.e. þann part 1. gr. sem eftir er miðað við þær breytingartillögur sem fyrir liggja. Í 2. tölulið bendir hann á í umfjöllun sinni um 1. gr., með leyfi forseta:

„Í greinargerð kemur fram að hugtakið „þjóðareign“ er sérstakrar merkingar sem ekki fellur vel að hefðbundinni eignarréttarlegri merkingu. Orðanotkun að þessu leyti er ekki sérstakt vandamál, enda nægjanlega skýrt af greinargerð hvað átt er við, auk þess sem hafa má hliðsjón af þjóðlendulögunum, sbr. lög nr. 58/1998, eins og bent er á í greinargerð. Ástæða er til að taka þetta fram þar sem heyrst hafa þau sjónarmið að hugtakið sé merkingarlaust, en svo þarf ekki að vera. Því er gefin ákveðin merking með setningu ákvæðisins og lögskýringargögnum.“

Svo heldur hann áfram og segir í 3. tölulið, með leyfi forseta:

„Af greinargerð má ráða að menn hafa hér ekki síst í huga auðlindir sjávar, einkum fiskstofnana. Ég tel að máli skipti að huga að því hvaða þýðingu ákvæðið um þjóðareign í stjórnarskrá hefur fyrir réttindi þeirra sem nú njóta veiðiheimilda skv. lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006. Þetta atriði er óljóst. Svar mitt til bráðabirgða er að ákvæði frumvarpsins sé tæpast til þess fallið“ — tæpast til þess fallið, segir hann, en útilokar það ekki — „að breyta núverandi réttarstöðu. Þetta merkir að verði niðurstaðan sú, t.d. í dómsmáli, þar sem á það kynni að reyna, að handhafar veiðiheimilda hafi nú þegar eignast yfir þeim réttindi sem stjórnarskráin verndar, verða þau tæpast skert með vísan til þessa stjórnarskrárákvæðis. Í stuttu máli, ákvæðið eitt og sér breytir sennilega engu um réttarstöðu þeirra sem nú njóta veiðiheimilda. Þó ber að árétta að þetta er flókið mál og æskilegt að nákvæm skoðun fari fram á þessu atriði og mögulegum afleiðingum ákvæðisins að þessu leyti.“

Þarna eru, virðulegi forseti, að mínu mati varúðarorð um það ákvæði sem verið er að leggja til sem ástæða er til að skoða og sem gefur tilefni til þess að kanna þetta betur og flana í engu að þessu. Og til viðbótar kemur að ef meiningin er að fara af stað með stjórnlagaþing, eins og enn þá virðist vera, þá hlýtur maður auðvitað að velta fyrir sér hvað það er sem gerir það að verkum að stjórnarmeirihlutinn er svona ákafur í að fara í stjórnlagaþing til að breyta stjórnarskránni frá grunni en samt á að binda hendur stjórnlagaþingsins eða a.m.k. að reyna það varðandi auðlindaákvæðið. Þá spyr maður: Hvað ætla menn að gera ef stjórnlagaþing vill ekki setja auðlindaákvæði í stjórnarskrána? Hvað ætla menn þá að gera?

Þetta vekur upp spurningar um það sem ýmsar vísbendingar eru um núna að ekki á að hafa neitt stjórnlagaþing. Þess vegna eru menn svo ákafir í að setja auðlindaákvæðið inn af því þeir ætla sér að þvinga það í gegn með hvaða aðferðum sem til greina geta komið.

Virðulegi forseti. Síðan er ítarleg umsögn af hálfu hagfræði- og félagsvísindadeildar Háskóla Íslands. Áður en ég vík að henni verður ekki hjá því komist að benda á athugasemdir Sigurðar Líndals um 1. gr. Í II. hluta í umsögn sinni, og raunar í I. hluta líka, fer hann ítarlega yfir 1. gr. og hann segir þar, með leyfi forseta:

„Ég tel að skoða þyrfti 1. gr. frumvarpsins betur vegna óljósrar merkingar orða og hugtaka sem þar eru notuð.“

Það er auðvitað grafalvarlegt mál að tala um að óljóst sé hvaða merkingu orð og hugtök hafa í þessu ákvæði. Það gengur ekki ef fyrir fram er vitað að hugtök og orð í stjórnarskránni sjálfri séu óljós. Svo segir hann, með leyfi forseta:

„Í orðið þjóðareign er ekki hægt að leggja hefðbundna merkingu eignarréttarins þótt þess hafi margsinnis gætt í umræðu. Almenn merking orðsins eign er hins vegar svo margþætt að hana er ekki unnt að leggja til grundvallar í rökræðu. Það hefur þó óspart verið notað í kappræðu sem Íslendingar stunda gjarnan, en er þar til truflunar og ýfir upp deilur.“

Endanleg niðurstaða Sigurðar Líndals um1. gr. er sú, með leyfi forseta:

„Ég tel nauðsynlegt að huga vandlega að þessu og því rétt að fella brott 1. gr. þannig að betra tóm gefist til að huga að því hvernig slíkum yfirlýsingum verði fyrir komið ef á annað borð þykir rétt að hafa slíkt í stjórnarskrá.“

Ég hef eingöngu vitnað í tvo umsagnaraðila en ég mun í næstu ræðu minni fara yfir hagfræði- og viðskiptadeildina. Þarna eru virðulegir fræðimenn, óumdeildir, að benda á, þó að hæstv. forsætisráðherra haldi (Forseti hringir.) öðru fram, að alls engin samstaða er um að setja svona ákvæði í stjórnarskrána. Þvert á móti vara virðulegir og vel virtir fræðimenn sérstaklega við því.