136. löggjafarþing — 131. fundur,  15. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[01:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Eins og ég gat um í síðustu ræðu minni — sem var ekki nándar nærri búin, það er ekki viðbúið að ég klári með þessari 10 mín. ræðu minni, það er alltaf að styttast tíminn sem maður hefur til að ræða málin — þá sakna ég þess að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir eða hv. þm. Birkir J. Jónsson séu ekki viðstödd umræðuna því að ég veit raunar ekki um hvað ég á að tala. Ég veit ekki hvort hægt er að gera kröfu til þess um miðja nótt, kl. 2, að kalla þessa þingmenn til umræðu um málið en þau eru meðflutningsmenn á nefndarálitinu sem við ræðum, áliti sérnefndar, eftir 1. umr. Mér finnst það skipta töluvert miklu máli hvort 4. gr. er inni eða úti og það veit ég ekki, ég hreinlega veit ekki hvort ætlunin er að hafa hana inni eða úti.

Fyrst mér gefst tækifæri til þess ætla ég að fara í gegnum breytingar á stjórnarskránni eins og þær eru í dag. Þær eru afskaplega þunglamalegar, herra forseti. Strax og búið er að samþykkja breytingu á stjórnarskrá þarf að rjúfa þing. Hvað þýðir það praktískt? Að breytingar á stjórnarskrá eru alltaf gerðar í lok kjörtímabils. Það er reglan. Hvað gerist þá, herra forseti? Þá er breytingin borin undir þjóðina í venjulegri alþingiskosningu þar sem fólk kýs flokka eftir efnahagsástandi, eftir velferðarmálum, eftir hinum og þessum sjónarmiðum, það er alls ekki að kjósa um stjórnarskrána. Kjósendur eru ekki að greiða atkvæði um stjórnarskrána eina og sér. Þingið er að sinna breytingum á stjórnarskránni í hjáverkum. Einhver nefnd er að störfum sem fjallar um breytingu á stjórnarskránni. Síðan kemur það inn í þingið og er rætt fram og til baka í þjóðfélaginu og í lok kjörtímabilsins er það samþykkt hér á Alþingi, þing rofið og svo greiðir þjóðin atkvæði um það ásamt með einhverju allt öðru.

Þjóðin er í rauninni að kjósa þingmenn fyrir næsta kjörtímabil og það er innifalið að hún greiði atkvæði um breytingu á stjórnarskránni. Yfirleitt vita menn ekkert af því þannig að það er ekki einu sinni til umræðu í kosningabaráttunni. Þetta finnst mér ekki vera nógu sniðugt. Ég tel að það sé mjög brýnt að breyta stjórnarskránni. Ég er búinn að fara í gegnum það nokkrum sinnum, fór vel í gegnum það í fyrstu ræðu minni að ýmislegt er mjög athugavert við stjórnarskrána, t.d. öll ákvæðin um forseta Íslands sem eru meira og minna plat. Gott dæmi er 26. gr. þar sem við fengum fyrir nokkrum árum þrjú merk lögfræðiálit, ég las þau öll og féllst á öll með mikilli aðdáun yfir þeirri lögspeki sem þar var að baki. En þau komust öll að mismunandi niðurstöðu, þessi þrjú álit. Stjórnarskráin er ekki greinilegri en það.

Ég tek undir með hv. þm. Dögg Pálsdóttur um 1. gr. og 3. gr., ef 4. gr. á að vera inni. Nú vitum við það ekki einu sinni. En segjum að 4. gr. eigi að vera inni og halda eigi stjórnlagaþing þá finnst mér dálítið skrýtið að verið sé að breyta stjórnarskránni rétt áður en á að fara að breyta henni, bæði varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur og eins varðandi auðlindaákvæði. Sá grunur læðist að mér — ég hef nefnt það áður en maður neyðist til að endurtaka sig þegar nýir menn hlusta, nýir hv. þingmenn — að það eigi ekki að setja þetta stjórnlagaþing. Af hverju eru menn að breyta stjórnarskránni ef það á að koma á stjórnlagaþingi sem á að breyta henni alveg frá grunni? Þá er verið að taka fram fyrir hendurnar á stjórnlagaþinginu. Annaðhvort treysta menn ekki stjórnlagaþinginu eða ætla ekkert að setja það í gang eða trúa því að þar verði allt upp í loft og engin niðurstaða náist og þess vegna sé eins gott að breyta stjórnarskránni pínulítið áður.

Ég hef ekki enn þá farið í gegnum einstakar greinar í þeim breytingum sem fyrir liggja. Í 1. gr. er fjallað um fyrirbærið náttúruauðlindir. Þetta er í mínum huga mjög óskýrt hugtak. Í fyrsta lagi: Hvað er auðlind? Samkvæmt orðanna hljóðan er það lind sem auður vellur upp úr, mundi maður telja. Náttúruauðlind er þá væntanlega einhver auðlind í náttúrunni sem auður vellur upp úr.

Sú auðlind sem menn horfa oftast til eru fiskstofnarnir kringum landið. Mjög margir sjá þá sem hina einu sönnu auðlind og ekkert annað. Aðrir hafa svo uppgötvað að til er eitthvað sem heitir orka í fallvötnum og þar sprettur auður upp úr engu og svo er tíðnisvið rafsegulbylgna verndað sem auðlind. Rafsegulbylgjur eru útvarpsbylgjur, sjónvarpsbylgjur, ljós og annað slíkt, afskaplega vítt spektrum af bylgjum. En tíðnisvið rafsegulbylgna er að verða auðlind, selt dýrum dómi fyrir nokkrum árum um alla Evrópu fyrir milljarða dollara eða evrur eða hvað það nú er. Yfirleitt er allt það sem er takmarkað auðlind, það virðist vera lögmál.

Nú er það þannig að fiskveiðar á Íslandi voru mjög mannskæðar, þeim fylgdu hörmungar — ég get ekki talað um það án þess að geta þess að í pínulítilli frétt, sem lét lítið yfir sér, var sagt að í fyrsta skipti í Íslandssögunni hefði enginn sjómaður farist hér við land á síðasta ári. Það hefði átt að verða tilefni til hátíðarhalda, herra forseti, það er ekki lítið sem hefur verið lagt á þessa þjóð í gegnum aldirnar hvað varðar mannskaða við fiskveiðar. Það er það verð sem við höfum borgað fyrir fiskveiðarnar. Þegar skipakosturinn varð betri varð auðveldara að veiða fiskinn. Óttast var að honum yrði útrýmt og þá þurfti að takmarka aðganginn að fiskimiðunum. Þá fyrst varð þetta auðlind. Það er svo merkilegt með árnar sem menn tala núna um sem auðlind, orkuna, þær voru til bölvunar í sveitum landsins fyrr á öldum, skildu að héruð og menn og skepnur fórust í þessum jökulám. Allt í einu eru þær orðnar auðlind vegna þess að mannshugurinn, mannvitið, kom þar að. Það skyldi nú ekki vera í öllum tilfellum að auðlind verði ekki til fyrr enn mannauðurinn kemur að, hvort sem það er orka, rafsegulbylgjur, sjávarútvegur eða hvað það nú er. Þetta fyrirbæri, náttúruauðlind, er í rauninni mannauður. Þess vegna er í mínum huga alls ekki klárt hvað náttúruauðlind er, það breytist. Það sem einu sinni var til bölvunar, Þjórsá t.d., er nú auðlind.

Svo er það þjóðareignin. Ég veit hvað er mín eign. Ég get selt það sem ég á, ég get eyðilagt það, ég get gert við það það sem ég vil. Bíllinn minn t.d., ég má nota hann, ég má veðsetja hann og ég má selja hann. En þjóðareign, hvað skyldi það nú vera? Getur maður veðsett þjóðareign? Getur maður selt hana? Getur einhver hluti af þjóðinni selt þjóðareignina, sinn part? Getur einn maður komið og sagt: Ég ætla að ná í 1:300.000 af þessari eign? Nei, það er ekki hugsunin. Þetta er eitthvert algilt hugtak sem ég fæ engan botn í. Þetta er ekki eign, getur ekki verið það fyrir utan það að hugtakið þjóð er heldur ekki klárt í hugum manna því að rétt á eftir stendur: „Ríkið fer með forsjá þeirra.“ Ríkið! Það er allt annað. Ríkið er lögpersóna sem stýrir ríkisvaldinu, innheimtir skatta, sér um velferðarkerfið. Í mínum huga, eins og ég gat um í einni ræðu minni, sem ég hélt um miðja nótt, hefur ríkið þann eina tilgang að vernda mannréttindi og stjórnarskráin hefur þann eina tilgang að segja frá því hvaða mannréttindi eru í gildi.

Nú sé ég að tími minn er liðinn og ég er ekki búinn að ræða nema takmarkað um 1. gr. þannig að ég þarf sennilega að taka aftur til máls. Draumur hæstv. forseta um að þessu máli sé lokið — ef öðrum liggur svona margt og mikið á hjarta eins og mér þá held ég að langt verði í það að umræðunni verði lokið. Þó að hægt sé að taka ræðutíma hvers og eins, leggja hann saman og fá út einhverja tölu, kl. 3 eða 4 í nótt, þá er langt í frá að svo sé hvað mig varðar alla vega.