136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

stefna VG í efnahagsmálum.

[10:35]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni kærlega fyrir það tækifæri sem ég fæ til að skýra stefnu Vinstri grænna í atvinnumálum. Mig langar til að árétta það sem varaformaður Vinstri grænna, hæstv. menntamálaráðherra Katrín Jakobsdóttir, sagði á opnum fundi Ríkisútvarpsins í gær, það er stefna okkar að fara blandaða leið í því að stoppa í fjárlagagatið, í hallann sem Sjálfstæðisflokkurinn skilur eftir handa þessari þjóð. Við þurfum að gera það bæði með því að hækka skatta og með því að skera niður. Það er eitt af því sem varaformaður okkar sagði í gær.

Lykilatriðið í því hvernig á að nálgast þessa hluti er að jafna kjörin og verja störfin. Það er ekki nóg að segja: Við ætlum að skapa 20.000 störf, eins og sagt var á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Það þarf að verja þau störf sem fyrir eru og sérstaklega störfin í velferðarþjónustunni, heilbrigðisþjónustunni, félagsþjónustunni og menntakerfinu. Þar þarf að verja störfin og það er mikilvægt að þar verði kjörin jöfnuð þannig að frekar geti fleiri komið að en að sumir haldi ofurlaunum sínum og aðrir missi vinnuna. Það eru þegar komin fordæmi fyrir þessu í heilbrigðisþjónustunni þar sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur náð töluverðum árangri og ætlar sér meira í því að lækka laun sérfræðilæknanna og þeirra sem eru á hæstu laununum. Til hvers? Til að verja kvennastörfin sem eru lægst launuð í heilbrigðisþjónustunni. Það hefur orðið launalækkun á almennum vinnumarkaði og ég tek undir með varaformanni Vinstri grænna, það þarf auðvitað líka að jafna kjörin hjá opinberum starfsmönnum (Forseti hringir.) ef við ætlum að verja störfin.