136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

stefna VG í efnahagsmálum.

[10:37]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Þetta er sérkennileg umræða sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson byrjar á og ræðan þar sem hann talar um aðför að launafólki. Aðförin að launafólki í þessu landi er sú aðför sem Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir, (Gripið fram í.) m.a. með bankahruninu, og nú gala þingmenn Sjálfstæðisflokksins og eru orðnir leiðir á að heyra þennan söng. En þessi söngur verður aldrei of oft sunginn. Það þarf að upplýsa þjóðina (Gripið fram í.) og minna hana á það reglulega að Sjálfstæðisflokkurinn bar ábyrgð á efnahagshruninu, sem kemur síðan og talar um aðför að launafólki.

Það er alveg ljóst að íslensk þjóð mun þurfa að bera byrðarnar af efnahagshruninu og stefnu Sjálfstæðisflokksins til margra ára. (Gripið fram í: Og hvað …?) Íslensk þjóð mun þurfa að bera þær byrðar í boði Sjálfstæðisflokksins. Engum er greiði gerður með því að segja þjóðinni ósatts eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert um langt skeið, hvort sem hann er að tala um þær raunverulegu skuldir sem þjóðin þarf að bera, það raunverulega ástand sem hér var að skapast í efnahagsmálum allt síðasta ár eða hvort hann talar um sín innri mál. Hann segir þjóðinni ósatt.

Það sem við segjum einfaldlega er að við viljum að það verði komið á jafnrétti og réttlæti í skattamálum. Það var ekki gert meðan Sjálfstæðisflokkurinn fór með skattamál í þjóðfélaginu. (Gripið fram í.) Við viljum koma á jöfnuði og við gerum okkur grein fyrir því að allir þurfa að bera einhverjar byrðar, því miður, en þannig er það og þjóðin á rétt á að fá að vita hvernig menn vilja standa að því. (Gripið fram í.)

Við viljum í fyrsta lagi koma á jöfnuði í skattkerfinu. Við viljum koma í veg fyrir skattundanskot og erum að vinna að því í þinginu til að allir leggi sitt af mörkum. Við viljum að þeir sem bera mest úr býtum, þrátt fyrir allt, leggi meira af mörkum, að þeir sem eiga mjög miklar og stórar eignir eða hafa mjög miklar fjármagnstekjur sem enn þá eru þó einhverjir í samfélaginu leggi sanngjarnt af mörkum (Forseti hringir.) í stað þess að leggja mestu byrðarnar á þá sem minnst hafa.