136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

stefna VG í efnahagsmálum.

[10:42]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Mönnum hættir dálítið til að mála myndina sterkum litum í aðdraganda kosninga og þá þeim litum sem mönnum þykir best henta. Þá getur verið ágætt að fara svolítið yfirvegað yfir málið. Ég held að það væri ástæða til að reyna að draga upp myndina eins og við vitum hana sannasta og besta.

Í fyrsta lagi eru skuldirnar ekki það fjall sem sagt hefur verið að þær séu. Eins og málið lítur út núna eru þær skuldir sem skattgreiðendur koma til með að þurfa sannarlega að greiða í fyrsta lagi það sem fellur á ríkissjóð vegna Icesave-reikninganna. Við vitum ekki hvað það er mikið. Það hefur verið áætlað að það væru 72 milljarðar en það er óvíst. Menn gera sér vonir um að það verði ekki neitt. Hugsanlega verður um að ræða vaxtagreiðslur af skuldinni þar til tekist hefur að selja eignirnar sem standa á bak við þær kröfur.

Í öðru lagi þurfa skattgreiðendur að greiða fjárlagahallann sem verður núna og á næstu árum. Þetta eru stærstu tölurnar sem skattgreiðendur þurfa að borga og það er viðfangsefni ríkisstjórnar á komandi kjörtímabili fyrst og fremst, þ.e. að ljúka samningum og innlausn eigna við Icesave-reikningana annars vegar og ná tökum á ríkisfjármálunum hins vegar. Það skiptir miklu máli að vel takist til. Það er ekki hægt að leggja til neinar lausnir í því að ná tökum á ríkisfjármálum. Menn verða að hækka skatta og menn verða að lækka útgjöld. Það er alveg sama hvaða skoðanir menn hafa á því í grundvallaratriðum, þegar kemur að því að leysa svo stórt viðfangsefni sem fjárlagahallinn er núna, upp á 150 milljarða, eru engar aðrar lausnir til og menn eiga ekki að tala eins og það sé hægt.