136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

stefna VG í efnahagsmálum.

[10:44]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þekki hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson ekki fyrir sama mann. Er þetta ekki sami hv. þingmaður og hækkaði tekjuskattsprósentuna um áramótin sem viðbrögð við kreppunni? Er þetta ekki sami hv. þingmaður og stóð að niðurskurði í heilbrigðiskerfinu, flötum niðurskurði sem auðvitað bitnaði á kjörunum þar? Er þetta ekki sami hv. þingmaður og tók þátt í því að senda út skilaboð um að lækka ætti þau laun sem heyra undir kjaradóm? Er ekki hv. þingmanni ljóst að frjálshyggjan hefur hrunið og það þarf að greiða reikninginn?

Við þurfum að deila því og við þurfum að deila því réttlátlega. Við höfum tekið á okkur launalækkun hér. Fjölmargir í samfélaginu hafa tekið á sig launalækkanir og þannig verður það. Það er furðulegt að koma upp eftir það sem á undan er gengið og eftir það að hafa hækkað skatta á lág- og meðaltekjufólk árum saman með því að halda niðri persónuafslættinum og hrópa um það að einhverjir þurfi að greiða reikninginn. Auðvitað er það bara þannig. Þá skiptir máli að forgangsraða og það skiptir máli að standa vörð um störfin í velferðarþjónustunni og ef fara þarf í skattahækkanir eiga þær að lenda á þeim sem mest bera úr býtum. Þá skiptir máli að staðinn sé vörður um lág- og meðaltekjufólkið sem Sjálfstæðisflokkurinn skattpíndi árum saman. Þannig er það bara, virðulegur þingmaður Sigurður Kári Kristjánsson.