136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

stefna VG í efnahagsmálum -- orð þingmanns um framlög til stjórnmálaflokka.

[10:46]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart og er eðlilegt að íslenskir vinstri menn í þinginu séu núna orðnir býsna órólegir þegar staðfest hefur verið að þeir ætla sér að lækka laun opinberra starfsmanna og hækka skattana á heimilin í landinu á sama tíma. Það var staðfest í ræðu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur og hún ætlar að fara svokallaða blandaða leið, (Gripið fram í: Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn …) lækka launin og hækka skattana. (Gripið fram í.)

Sjálfstæðisflokkurinn er ekkert að tala um það að fóðra eitthvert ofurlaunalið. (Gripið fram í.) Við gagnrýnum það, (Gripið fram í.) ég gagnrýni það að hæstv. ráðherra Katrín Jakobsdóttir sagðist í sjónvarpsþætti í gær vilja lækka laun opinberra starfsmanna. Ég gagnrýni að Vinstri grænir ætli að lækka laun opinberra starfsmanna á sama tíma og þeir ætla að hækka skattana á þetta sama fólk og rýra ráðstöfunartekjur heimilanna í landinu. Vinstri grænir munu ekki koma heimilunum í landinu til hjálpar með því að taka stærri hluta af launum þeirra inn í ríkissjóð, fólk sem hefur þurft að taka á sig launalækkanir, býr við háa vexti og háa verðbólgu. (Gripið fram í: Hver er stefna Sjálfstæðisflokksins í skattamálum?) Það sem meira er … (Gripið fram í.) Stefna Sjálfstæðisflokksins er alveg skýr. Við ætlum ekki að standa að aðför að heimilunum í landinu með því að hækka skattana, (Gripið fram í.) það er alveg skýrt. (Gripið fram í.) Við höfum lýst því yfir að Sjálfstæðisflokkurinn muni ekki hækka skatta á heimilin í landinu. (Gripið fram í.) Við björgum ekki málefnum heimilanna með því að hækka skattana í landinu. (Gripið fram í.)

Mér sýnist að forustumenn Vinstri grænna ætli meira að segja að ganga lengra (Gripið fram í.) því að hæstv. menntamálaráðherra hefur lýst því yfir að hún ætli að taka að sér kennslustörf í Háskóla Íslands og vera þar af leiðandi í tvöfaldri vinnu (Forseti hringir.) á tvöföldum launum væntanlega. Væri ekki nær að fá einhvern (Forseti hringir.) með kennsluréttindi sem er atvinnulaus til þess að sinna þessum brýnu verkefnum frekar en (Forseti hringir.) þingmann í fullri vinnu? (Forseti hringir.)