136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

stefna VG í efnahagsmálum -- orð þingmanns um framlög til stjórnmálaflokka.

[10:59]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Það er ótrúlegt að hlusta á málflutning sjálfstæðismanna hér. Manni dettur í hug þegar þeir tala um aðför að launafólki: Þeir sletta skyrinu sem eiga það. Eða kannski er við hæfi í Sjálfstæðisflokknum að segja: Þeir hræra skyrið sem eiga það, eins og frægt er orðið.

Þær byrðar sem lagðar eru á íslenska þjóð eru til komnar vegna efnahagshrunsins (Gripið fram í.) og það er vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn brást ekki við ástandinu. Þegar hv. þm. Sturla Böðvarsson kemur hér og talar um fögru myndina 2007 — það höfðu margir í samfélaginu, bæði sérfræðingar og stjórnmálamenn, m.a. Vinstri hreyfingin – grænt framboð, varað við ástandinu hér missirum saman en leiðtogar Sjálfstæðisflokksins skelltu skollaeyrum við.

Fyrir ári síðan stóð þáverandi hæstv. forsætisráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, hér og sagði: Botninum er náð. Þó vissi hann á því augnabliki hver staðan var vegna þess að allar eftirlitsstofnanir höfðu varað við. En þjóðinni var ekki sagt satt. Það er því alveg ljóst að þær byrðar sem þjóðin mun þurfa að bera á næstunni eru til komnar vegna efnahagshrunsins og það sem skiptir mestu máli núna er hvernig er unnið úr þeirri stöðu sem við erum í. (Gripið fram í.) Það ætlum við að gera með réttlæti.

Formaður Sjálfstæðisflokksins Geir H. Haarde sagði hér fyrir áramót: Það er ekki hægt að útiloka skattahækkanir. (Gripið fram í.) Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði líka í sjónvarpsþætti: Það er ekki hægt að útiloka skattahækkanir. (Gripið fram í.) En þegar spunameistarar Sjálfstæðisflokksins bentu honum á að Sjálfstæðisflokkurinn væri að öllum líkindum á leið í langa stjórnarandstöðu, hentaði þeim að segja: Að sjálfsögðu ætlum við ekki að hækka skatta.

Allir þurfa að bera auknar byrðar í einhverjum mæli. Það hafa margir orðið fyrir launalækkun á almenna markaðnum, í opinbera geiranum, það eru bara staðreyndir sem við skulum horfast (Forseti hringir.) í augu við og ekki reyna að blekkja þjóðina eins og Sjálfstæðisflokkurinn (Forseti hringir.) hefur gert í áravís.