136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

fjármálafyrirtæki.

409. mál
[11:54]
Horfa

Frsm. viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins vegna orða hv. þingmanns um afstöðu kröfuhafa. Kröfuhafar eru að sjálfsögðu óánægðir. Þeir eru allir hundóánægðir vegna þess að þeir tapa peningum. Þeir hafa hins vegar engu að síður sæst á það ferli sem sett var upp með nóvemberlögunum sérstaklega með greiðslustöðvun til allt að 24 mánaða. Náðst hefur að fá viðurkenningu á því ferli á Evrópska efnahagssvæðinu, í Bandaríkjunum og í Kanada og er það vel.

Þess vegna er í bráðabirgðaákvæði II í því frumvarpi sem við erum með til 3. umr., því formi greiðslustöðvunar viðhaldið sem slíku enda þótt ákveðið slitaferli hefjist.

Það skiptir mjög miklu máli og mestu máli fyrir kröfuhafana nú, og það kemur greinilega fram í þeim umsögnum sem komu til nefndarinnar og einnig til ráðuneytisins við vinnslu þessa frumvarps, að kröfuhafar fái aðstöðu til þess að lýsa kröfum sínum, að þær verði innkallaðar. En til þess duga skilanefndirnar einfaldlega ekki. Þær starfa og hafa starfað í lagalegu tómarúmi og eru vanhæfar til þess að fjalla um rétthæfi krafna vegna aðkomu sinnar að rekstri búanna.

Hér er verið að leggja upp með lögformlegt ferli sem er byggt á gjaldþrotaskiptalögunum sem njóta viðurkenningar og menn þekkja og er byggt á sama rétti og annars staðar í Evrópu.

Hvað varðar athugasemdir Virginiu Cooper, sem er lögmaður breskra sveitarstjórna sem hafa gert kröfu vegna Icesave-reikninganna, kom hún fyrir nefndina en tjáði sig ekki. En ég vil minna á að fjárlaganefnd breska þingsins telur ekki rétt að bæta sveitarfélögunum það sem þau töpuðu á Icesave heldur eingöngu góðgerðarsamtökum. (Forseti hringir.)