136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

fjármálafyrirtæki.

409. mál
[11:59]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S):

Frú forseti. Hér fer fram 3. umr. um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Þetta er lagafrumvarp og lagabreytingar sem nauðsynlegt er að gera í kjölfar hrunsins. Þetta frumvarp er skylt því sem við vorum að ræða í gær, þó að ég ætli ekki að bera þau að öðru leyti saman, þá ræddum við frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum er varða fjármálamarkaðinn og þó að þar séu allt aðrar heimildir eru þetta allt breytingar sem leiða af því sem yfir okkur dundi í október sl. þegar allir viðskiptabankarnir hrundu á örfáum dögum og fóru undir Fjármálaeftirlitið og sérstakar skilanefndir.

Réttarstaðan sl. haust áður en bankahrunið varð var sú að í XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki frá árinu 2002 voru ákvæði um endurskipulagningu fjárhags fjármálafyrirtækja, slit þeirra og samruna við önnur fjármálafyrirtæki. Þar voru settar reglur sem fyrst og fremst voru byggðar á ákvæðum tilskipana frá Evrópusambandinu, tilskipana sem við þurftum að leiða í lög vegna skuldbindinga samkvæmt EES-samningnum. Þessar reglur eru hins vegar því marki brenndar að þær höfðu ekki gert ráð fyrir því að algert hrun gæti orðið eins og við lentum í. Þegar við síðan lentum í þeim aðstæðum sem þá komu upp kom í ljós að reglurnar dugðu í raun og veru ekki, þær tóku ekki á þeim vandamálum sem við stóðum frammi fyrir. Þær gerðu ekki ráð fyrir því að það gæti komið upp nokkurs staðar í einu landi sú staða að allir viðskiptabankarnir mundu óska eftir því að þeir yrðu yfirteknir af fjármálaeftirliti landsins. Við þessu var brugðist af okkar hálfu bæði með neyðarlögunum og svokölluðum nóvemberlögum en það lá fyrir að hvor tveggja þau lög voru sett með svo skömmum fyrirvara og við þær aðstæður að það var ljóst að það þyrfti að endurskoða þau mjög fljótt og breyta til að setja upp regluverk sem væri skiljanlegt og kannski ekki síst gegnsætt þannig að allir gætu við unað. Það er það sem gert hefur verið í því frumvarpi sem hér hefur verið til umræðu.

Í því regluverki sem við erum að setja upp hefur verið byggt á þremur meginsjónarmiðum sem Evróputilskipunin frá 2001 hefur að leiðarljósi, ég skil það svo að í raun og veru séum við að setja upp regluverk þótt það horfi til þessara tilskipana þá er það engu að síður einstakt að það sé sett í löggjöf landa á Evrópska efnahagssvæðinu því önnur lönd hafa ekki þurft á sambærilegu ákvæði að halda. Hv. formaður viðskiptanefndar leiðréttir mig ef ég hef misskilið þetta. En það sem við höfum gert með þessu regluverki sem hér er verið að leggja til er að við höfum haft þau meginsjónarmið sem tilskipunin frá 2001 hefur að leiðarljósi, þ.e. að regluverkið byggi á því sem kallað er eining eða principal of unity, algildi eða principal of universality og jafnræði eða principal of non-discrimination. Þetta eru þau þrjú meginsjónarmið sem tilskipun byggir á og í skýringum eða athugasemdum með því frumvarpi sem við ræðum hér er rík áhersla lögð á að þessum meginsjónarmiðum hafi verið fylgt til hins ýtrasta jafnvel þótt það leiddi af sér óhagræði eða meiri vinnu, t.d. við tilkynningar við kröfuhafa, en leiðarljósið og grundvallaratriðið er að tryggja algert jafnræði innlendra og erlendra kröfuhafa fjármálafyrirtækja sem hafa starfsemi í fleiri en einu ríki á Evrópska efnahagssvæðinu.

Það kom fram í orðaskiptum hv. þm. Guðfinnu Bjarnadóttur og hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur að kröfuhafar væru ekki ánægðir. Það er einu sinni svo þegar kemur að meðferð eins og þessi meðferð er, þ.e. slitameðferð á bönkum þar sem verið er að tryggja það að kröfuhafar fái sem mest, en það er eðli meðferðar af þessu tagi að auðvitað eru kröfuhafar ekki ánægðir, kröfuhafar eru aldrei ánægðir þegar fyrirtækið fer í þrot. Þrot þýðir nefnilega að kröfuhafar fá frá því að fá ekki neitt og upp í það að fá eitthvert hlutfall og stundum verulegan hluta krafna sinna. Það er nú einu sinni einkenni þrotameðferðar. Kröfuhafar verða aldrei ánægðir, þ.e. þeir verða aldrei ánægðir með niðurstöðuna á því hvað þeir fá upp í kröfu sína. Það leiðir af hlutarins eðli að þeir tapa stundum öllu af þeim kröfum sem þeir eiga en það sem er leiðarljós þeirra reglna sem hér er verið að kynna er að tryggja að kröfuhafarnir geti haft einhverja sannfæringu, eitthvað öryggi fyrir því að þeir sitji allir við sama borð, þeir fái allir sömu meðferð, það sé engin hætta á því að einn kröfuhafi fái eitthvað umfram annan. Ég skildi orðaskipti hv. þingmanna sem ég vísaði til áðan á þann hátt að vinnan í viðskiptanefnd hefði a.m.k. að einhverju marki leitt það í ljós að kröfuhafar þessara þriggja banka sem hér liggja undir hafi a.m.k. lýst sig sæmilega sátta bæði við það reglugerð sem sett var í því skyndi og með þeim hraða sem nauðsynlegur var sl. haust og eins að þeir séu sæmilega sáttir við það regluverk sem hér er verið að teikna upp. Þetta skiptir afar miklu máli því það er grundvallaratriði í allri meðferð af þessu tagi að allir sitji við sama borð.

Það er sem sé, virðulegi forseti, með þessu frumvarpi verið að setja nýtt regluverk um slitameðferð fjármálafyrirtækja. Það er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að fjármálafyrirtækið sjálft hafi frumkvæði að slíkri slitameðferð en það er þó gert ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitið geti haft frumkvæði að því að taka yfirráð fjármálafyrirtækis. Það er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að um slitameðferðina gildi að verulegu leyti sömu reglur og gilda um gjaldþrotaskipti. Það er auðvitað eðlilegt. Þar höfum við regluverk sem er þaulreynt og við þekkjum til hlítar vegna þess að því hefur verið beitt margsinnis með þeim árangri að það eru þekktar og vel nothæfar reglur. En eins og ég sagði áðan vorum við örugglega í ákveðnu frumkvöðulsstarfi á sviði lagasetningar þegar við lentum í þessari stöðu sem ekkert annað land hefur lent í, þ.e. að allir viðskiptabankarnir hrundu. Þess vegna væri út af fyrir sig áhugavert að heyra frá hv. formanni viðskiptanefndar hvort og þá hvaða viðbrögð við höfum fengið á þessar tillögur frá t.d. Evrópusambandinu af því að við höfum að leiðarljósi þau meginsjónarmið sem tilskipunin frá 2001 byggir á.

Það er gert ráð fyrir því að skipuð verði slitastjórn sem hafi sömu heimildir og skiptastjóri í þrotabúi. Það er auðvitað alþekkt að skiptastjóri í þrotabúi tekur við öllum réttindum og skyldum þrotabús og stjórnar í raun búinu. En bent er á það í athugasemdum með frumvarpinu að það gildi þó sú aðalregla að slitastjórnin eigi að hafa það að markmiði að fá sem mest fyrir eignir fjármálafyrirtækisins, þar á meðal með því að bíða eftir þörfum endatíma á útistandandi kröfum þess fremur en koma þeim fyrir í verð. Þetta er kannski ekki frábrugðið því sem skiptastjóra í þrotabúi ber að gera. Skiptastjóri í þrotabúi hefur ríkar heimildir til þess að hámarka, og ekki bara heimildir því hann hefur skyldur til að hámarka þær eignir sem í búinu finnast til að tryggja að sem mest komi til skiptanna. Það er því út af fyrir sig kannski ekkert nýmæli að þetta skuli vera með þessum hætti en það er kannski nýmæli að það skuli orðað skýrt. Eftir því sem ég þekki best hefur vinnuregla í þrotabúum skiptastjóra frekar verið sú að hann hinkrar við að koma eignum í verð ef hann veit að smábið getur orðið til að verðið verði hærra.

Það er áfram á það bent að hér sé verið að setja sambærilegar reglur og eru gagnvart gjaldþrotaskiptunum og að kröfuhafar geti með sama hætti og svipað og tíðkaðist með gjaldþrotaskipti gætt hagsmuna sinna og átt þess kost að bera ágreining um réttmæti krafna og um ákvarðanir og ráðstafanir slíkrar stjórnar undir dómstóla. Þetta er auðvitað ákaflega mikilvægt og snýr að þeim meginreglum sem ég vék að hérna áðan um að allir kröfuhafar séu jafnréttháir, þ.e. auðvitað innan sömu kröfuflokka því að kröfuhafar geta átt misréttháar kröfur, við megum ekki gleyma því. En þegar kröfuhafar eiga jafnréttháar kröfur þá skiptir miklu að þeir sitji allir við sama borð. Það skiptir auðvitað mjög miklu að ef þeir eru ósáttir við það sem slitanefnd eða slitastjórn er að gera þá geti þeir borið þann ágreining undir dómstóla. Það er auðvitað meginatriði að ákvarðanir af þessu tagi séu ekki endanlegar hjá slitastjórninni heldur geti þeir með þessum hætti farið til dómstóla alveg með sama hætti og í gjaldþrotameðferð getur kröfuhafi farið með ákvörðun skiptastjóra til dómstóla.

Ég rifjaði upp í upphafi að í gær var til umræðu frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum á fjármálamarkaði út af heimildum þar sem m.a. stóð til að Fjármálaeftirlitið gæti einhliða ákveðið að kæra ekki þó að grunur væri um refsiverð brot þar sem t.d. væri ekki gert ráð fyrir því að neinar heimildir væru til að skjóta slíkum ákvörðunum neitt lengra. Þetta leiðir hugann að því að það er auðvitað algert grundvallaratriði í réttarríki að slíkum ákvörðunum sé hægt að skjóta til einhvers æðra stjórnvalds eða þá dómstóla eins og er í þessu tilviki því það má aldrei vera neinn grunur um að þetta séu einhvers konar tilviljanakenndar ákvarðanir og það verður að tryggja að ef kröfuhafi hefur grun um að eitthvað slíkt hangi á spýtunni þá geti hann látið á það reyna fyrir öðrum aðila. Þess vegna eru þessar leiðir fyrir kröfuhafa til að kæra ákvarðanir slitastjórnarinnar til dómstóla mjög mikilvægar.

Jafnframt er gert ráð fyrir því að slitastjórnin hafi heimild til að krefjast gjaldþrotaskipta á búi fjármálafyrirtækis. Allt eru þetta eðlilegar og nauðsynlegar heimildir. Það er sérstakt fagnaðarefni að milli 2. og 3. umr. hefur náðst samkomulag um að tveir stafliðir sem búið var að gera breytingartillögu um sem greinilega olli nokkrum óróa í hópi kröfuhafa, ekki síst c-liðurinn í 2. tölulið breytingartillögu á þskj. 858, að samkomulag hefur náðst um að fella þessar breytingar alfarið niður. Frumvarpið liggur því fyrir óbreytt í 3. umr. frá 2. umr. og fallið hefur verið frá þeim breytingartillögum, þær voru dregnar til baka. Ég held að ekki sé hægt að segja annað en að hér hafi verið unnið gott verk, bæði af hálfu viðskiptaráðuneytisins sem samdi þetta frumvarp og ekki síður af hálfu hv. viðskiptanefndar sem fór ítarlega yfir frumvarpið, fékk til sín marga gesti og gerði örfáar breytingar sem samstaða hefur náðst um. Að þetta frumvarp verði að lögum er örugglega eitt skref í áttina að því að leysa þann vanda sem við stöndum í eftir hrunið.