136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

fjármálafyrirtæki.

409. mál
[12:14]
Horfa

Frsm. viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins til að bregðast við þeirri spurningu sem hv. þm. Dögg Pálsdóttir varpaði til mín varðandi hvort og hversu vel þetta rímaði við evrópskan rétt og tilskipanir Evrópusambandsins í þessum efnum. Það kom fram hjá fulltrúum viðskiptaráðuneytis fyrir nefndinni að þess hefði verið gætt enda er hér fyrst og fremst byggt á grunni gjaldþrotaskiptaréttarins, gjaldþrotaskiptalaganna sem njóta viðurkenningar og eru sniðin að evrópskum rétti og eru í samræmi við tilskipanir Evrópusambandsins þar um.

Þó er sérstaklega verið að taka tillit til sérstöðu fjármálafyrirtækja eins og hv. þingmaður nefndi. Það er ítrekað að það eigi fremur að bíða með sölu eigna en ég vil taka undir það sem hv. þingmaður sagði, að að sjálfsögðu gera það allir skiptastjórar og þarf ekki fjármálafyrirtæki til.

Ég vil ítreka það sem segir í nefndarálitinu um innleiðingu tilskipunar nr. 24/2001 og minna á það sem ég sagði í framsöguræðu minni við 2. umr. að þetta regluverk Evrópusambandsins dugði ekki til sl. haust þegar heilt fjármálakerfi hrundi. Það regluverk er auðvitað, eins og menn þekkja, til endurskoðunar á vegum Evrópusambandsins og við hér á landi þurfum auðvitað að fylgjast með því, því að fyrr en síðar mun það koma inn á okkar borð að laga íslenskan rétt og regluverk að því.