136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

fjármálafyrirtæki.

409. mál
[12:37]
Horfa

Frsm. viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Björn Bjarnason ræddi evrópska regluverkið og Icesave og viðbrögð stjórnvalda við bankahruninu síðastliðið haust. Hann vitnaði til umræðna sem urðu hér í morgun, sem hv. þingmaður taldi fráleitar, og fjölluðu um ábyrgð Sjálfstæðisflokksins á því.

Þegar reynt er að svara þeim spurningum sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins reiða fram um það hverju við höfum að miðla til Evrópusambandsins eftir þá reynslu sem við höfum gengið í gegnum umliðinn vetur er sjálfsagt að velta því fyrir sér: Getum við miðlað úrvinnslu okkar á hruninu? Við erum nú þegar búin að stagbæta neyðarlögin einu sinni með nóvemberlögunum sem nú er verið að taka úr gildi í heilu lagi. Þar er því kannski ekki miklu að miðla fyrst við þurfum að breyta því öllu hér og nú.

Ég tel þó að nú sé málið komið í lögformlegan farveg í samræmi við gjaldþrotaskiptalögin og það sé vel. Ég hlýt að spyrja hvort að það sé kannski það hvernig ekki var brugðist við þrátt fyrir augljós hættumerki og viðvaranir sem komu fram í aðdraganda bankahrunsins — er það kannski það sem við þurfum að miðla til Evrópska efnahagssvæðisins og Evrópusambandsins?

Þegar þeir hlutir eru skoðaðir sést gleggst hversu mikil ábyrgð Sjálfstæðisflokksins er á því hversu harður skellurinn varð hér síðastliðið haust, að hunsa allar viðvaranir og augljós hættumerki. Hitt er svo annað mál að það hentar ekki Sjálfstæðisflokknum að viðurkenna þá ábyrgð núna.