136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

fjármálafyrirtæki.

409. mál
[12:40]
Horfa

Björn Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er efni í aðra ræðu hjá mér, ef svo ber undir, að fjalla um það hvernig bregðast hefði átt við þeim viðvörunum sem fram komu. Hv. þingmaður var sem formaður viðskiptanefndar m.a. að fjalla um frumvarp um breytingar á seðlabankalögunum. Gert var hlé á meðferð þess máls vegna þess að verið var að bíða eftir því hvað kæmi út úr skýrslu sem unnin var á vegum Evrópusambandsins um hvernig breyta ætti regluverki þess til að tryggja að stjórnvöld á vettvangi Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins hefðu þau tæki í höndunum að geta brugðist við og tekið á málum á þann veg að málum yrði ekki komið eins og við kynnumst hér í september/október árið 2008.

Það var eins og þingmenn kynntust töluverð spenna hér í þingsalnum út af því máli. Það er alveg augljóst að það er ekki bara hér á Íslandi sem verið er að fjalla um það hvaða mekanismi, ef ég má orða það svo, virðulegi forseti, hefði þurft að vera í gang í aðdraganda þessa hruns til þess að menn hefðu getað gripið til þeirra ráðstafana sem þurfti. Haldnar hafa verið heilu ráðstefnurnar um það. Nýlega var haldinn svokallaður G-20 fundur sem m.a. snerist um það hvaða reglur ætti að setja til þess að koma í veg fyrir þetta. Að kenna Sjálfstæðisflokknum um að þessar reglur hafi ekki verið í gildi er álíka fráleitt og að kenna Sjálfstæðisflokknum um þá lánsfjárþurrð sem varð á heimsvísu.

Þessar rökræður leiða ekki til annars en þess að það er enn þá augljósara eftir en áður að hv. þingmaður kaus að fara inn á þessa braut að Ísland var í sömu sporum og önnur ríki þegar til þessara mála er leitað og hvarvetna eru menn núna að reyna að fara yfir það og gera betur með nýju regluverki.