136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

366. mál
[14:32]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. formanni efnahags- og skattanefndar, Björgvini G. Sigurðssyni, fyrir framsögu sína en ég verð að segja að þetta mál kemur mér svolítið spánskt fyrir sjónir miðað við það hvernig orðalag framhaldsnefndarálitsins er. Hér er lagt fyrir Alþingi annað stjórnarfrumvarp þar sem viðkomandi þingnefnd leggur til að helmingur upphaflegu greinanna verði ekki lögfestur, þ.e. verði felldur niður. Það virðist í auknum mæli um það að ræða hjá ríkisstjórninni að kasta til höndunum við þá lagasmíð sem um er að ræða og lögð er fram á Alþingi. Ef borið er saman með hvaða hætti gangur þessa máls var og greinargerðar sem fylgdi frumvarpinu við upphaf málsins og það hvernig framhaldsnefndarálitið er nú orðað veltir maður fyrir sér hvort ekki sé full ástæða til að staldra við og hreinlega að láta hjá líða að gera nokkrar þær breytingar sem lagðar eru til þrátt fyrir einróma nefndarálit. Þá er spurning hvort í raun hafi verið unnið nægilega vel úr þessu máli, hvort ekki hafi verið um það að ræða að vilji hafi verið til að reyna að láta gott af sér leiða en ekki nægilega skoðað hvaða hliðarverkanir kynnu að fylgja því, það líti ef til vill þannig út að rétt sé af stað farið en endi hins vegar einhvers staðar á allt öðrum stað en til hafi verið ætlast eða til var stofnað.

Mér finnst einhvern veginn að við það að lesa framhaldsnefndarálitið og þær greinar sem eftir standa sé verulegur vafi í mínum huga að eðlilegt sé að taka þetta mál til afgreiðslu í þeim búningi sem það nú er, þrátt fyrir að nefndin hafi lagt til að helmingur upphaflegu lagagreinanna verði felldur út. Þetta voru 12 lagagreinar með gildistökuákvæðinu, sex efnisgreinar verða felldar út samkvæmt tillögu nefndarinnar og fimm standa eftir. Það er það sem um er að ræða.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst að þegar um er að ræða ákveðnar breytingar á sköttum þurfi að liggja fyrir fullnægjandi og skýr rök til réttlætingar því að lagðar séu meiri byrðar á borgarana og/eða gerðar breytingar á þeim reglum sem þar um ræðir. Við erum að tala um mjög viðkvæma löggjöf og þá þýðir ekki að kasta til þess höndunum og sér í lagi ekki þegar um er að ræða hluti sem tengjast fjölþjóðlegum viðskiptum og atriðum sem varða kannski lögsögu sem við höfum takmarkað með að gera.

Í 3. gr., þ.e. einni þeirra greina sem standa eiga eftir í frumvarpinu samkvæmt tillögu nefndarinnar, segir:

„Skattaðili sem á beint eða óbeint hlut í hvers kyns félagi, sjóði eða stofnun sem telst heimilisföst í lágskattaríki skal greiða tekjuskatt af hagnaði slíkra aðila í hlutfalli við eignarhluta sinn án tillits til úthlutunar.“ — Hvað er átt við hér, af hagnaði slíkra aðila í hlutfalli við eignarhluta sinn án tillits til úthlutunar? Síðan kemur: „Hið sama á við um skattaðila sem stjórnar félagi, sjóði, stofnun eða eignasafni í lágskattaríki sem skattaðili hefur beinan eða óbeinan ávinning af. Tekjur þessar eru skattskyldar með sambærilegum hætti og um væri að ræða starfsemi hér á landi.“

Þó að ég geti alveg virt þau sjónarmið og skoðanir sem þarna eru á bak við og tel þær góðra gjalda verðar, velti ég fyrir mér hvort nefndin hafi kannað það út í hörgul hvort þarna væru þær lagalegu forsendur að þjóðarétti til þess að gera þær breytingar svo sem hér er mælt fyrir. Mér þykir miður að hv. formaður efnahags- og skattanefndar skuli ekki vera í salnum en hann er ekki langt undan. En ég velti fyrir mér varðandi 3. gr. frumvarpsins hvort þær heimildir eru fyrir hendi að þjóðarétti til að gera þær breytingar á lögum sem mælt er fyrir um í 3. gr. og reyndar víðar.

Ég vil taka það fram að ég er hlynntur þeirri hugsun sem kemur fram í þessu lagaákvæði. Ég tel mjög mikilvægt að koma í veg fyrir að það verði til og hægt verði að nýta sér ákveðin skattaskjól sem þeir ríkustu í þjóðfélaginu geti nýtt sér og notið skattahagræðis sem öðrum stendur ekki til boða. Ég er fullkomlega sammála þeirri meginhugsun sem kemur fram í frumvarpinu en miðað við það hvernig til er stofnað og um hve óvandaða lagasmíð virðist vera að ræða sem hér er lögð fram af hálfu ríkisstjórnarinnar fyrir Alþingi þá velti ég því fyrir mér hvort þetta atriði hafi verið nægilega kannað. Ég ítreka að ég tel mjög mikilvægt að reynt verði að ná til þeirra fjármuna, þess hagnaðar og þeirra tekna sem verða til hjá íslenskum aðilum í erlendum skattaskjólum eftir því sem að framast er kostur en þá verður að gæta þess að þau lagalegu úrræði að þjóðarétti séu til staðar og séu virk. Ég vil þess vegna spyrja hv. formann efnahags- og skattanefndar hvort gengið hafi verið rækilega úr skugga um hvort sú löggjöf sem verið er að gera tillögu um standist miðað við lagaskilyrði og mögulegt inngrip í hugsanlegan rétt annarra ríkja með tilliti til þjóðaréttar. Mér finnst að það sé ákveðinn vafi hvað þetta varðar og mér finnst ég ekki fá óyggjandi skýringu á því í þeirri greinargerð sem fylgdi frumvarpinu.

Það sem gerir það að verkum að ég er ekki alveg öruggur með það sem hér er um að ræða er m.a. það sem kemur fram í framhaldsnefndarálitinu þar sem segir „tryggja íslenska ríkinu eðlilega hlutdeild í verðmætasköpun hér á landi“ sem er góðra gjalda vert og síðan segir: „Einnig væri fyrirsjáanlegt við núverandi aðstæður í efnahagsmálum að vaxtagreiðslur úr landi færðust í aukana.“ Þá spyr ég: Er það svo að þetta sé réttmæt staðhæfing? Er það svo að á árinu 2009 sé fyrirsjáanlegt við núverandi aðstæður í efnahagsmálum að vaxtagreiðslur úr landi færist í aukana? Ég hefði einmitt haldið að þessu væri öfugt farið eins og stöðu mála er háttað hjá okkur núna. Ég vil gjarnan fá skýringu á þessu orðalagi líka, hvort það geti verið um það að ræða að þetta gerist í auknum mæli.

Í nefndarálitinu kemur síðan fram: „Öndvert við það sem nefndin tók fram í áliti sínu fyrir 2. umræðu málsins töldu Viðskiptaráð og fulltrúar þeirra orkufyrirtækja og endurskoðunarskrifstofa sem nefndin ræddi við að ákvæði tvísköttunarsamninga mundu í mörgum tilvikum ekki girða fyrir að skatturinn legðist á hinn erlenda lánveitanda, skattbyrði sem á endanum yrði borin af innlendum lántaka. Lánsfjármagns væri þar að auki víðar að leita en í ríkjum sem gerðir hafa verið tvísköttunarsamningar við.“

Þá segir: „Nefndin telur að framangreindar athugasemdir gefi tilefni til að skoða betur hver áhrif 1. gr. frumvarpsins geti haft á aðgang íslenskra fyrirtækja að erlendu lánsfé.“

Mér sýnist einmitt að þessi athugasemd og þessi sjónarmið sýni mjög vel að hér er nokkuð kastað til höndunum, að það voru önnur sjónarmið uppi eftir yfirferð nefndarinnar þegar málið var tekið til 2. umr. í þinginu. Síðan eru komnir nokkrir aðilar í millibilinu og þá er allt í einu komin önnur niðurstaða sem nefndin er einhuga um og mér finnst þetta líka kalla á skýringar. Ég efa ekki að það sé rétt niðurstaða sem nefndin kemst síðan að þar sem segir: „Nefndin telur að framangreindar athugasemdir gefi tilefni til að skoða betur hver áhrif 1. gr. frumvarpsins geti haft á aðgang íslenskra fyrirtækja að erlendu lánsfé.“ Að sjálfsögðu hlýtur það að skipta gríðarlega miklu máli. En hvernig stóð á því að farið var af stað með þetta mál án þess að það væri kannað strax í upphafi? Hvernig stendur á því að þetta atriði er fyrst að koma til skoðunar og umhugsunar og íhugunar þegar framhaldsnefndarálit kemur fram við 3. umr. málsins? Hér vil ég alls ekki láta liggja að því að hv. efnahags- og skattanefnd hafi ekki unnið vinnuna sína vel, mér sýnist á þessu framhaldsnefndaráliti að reynt hafi verið að tjasla í þau miklu og stóru göt sem þetta frumvarp er, þ.e. hvernig staðið var að þessari lagasmíð og frágangi og þá sýnist mér að eitthvað hafi skort á að greinargerð með frumvarpinu hafi verið með fullnægjandi hætti.

Síðan segir: „Nefndin leggur áherslu á að þegar að loknum næstu kosningum verði, með hliðsjón af tilgangi greinarinnar, haldið áfram að leita leiða sem tryggt geta íslenska ríkinu eðlilega hlutdeild í vaxtagreiðslum úr landi.“

Ég spyr, virðulegi forseti: Er ekki eðlilegra, miðað við það frumvarp sem hér um ræðir, að taka frumvarpið í heild sinni til rækilegrar skoðunar en afgreiða ekki málið í einhverjum flýti rúmri viku fyrir kosningar, rétt fyrir þinglok, og fara algerlega að því sem er skoðun nefndarinnar, að leita leiða sem tryggt geti íslenska ríkinu eðlilega hlutdeild í vaxtagreiðslum hér á landi? Er ekki eðlilegt að þessir hlutir séu yfirfarnir gaumgæfilega og af natni til þess að um eðlilega og vandaða lagasmíð sé að ræða sem nær þeim tilgangi sem til er ætlast? Virðulegi forseti, mér finnst skipta miklu að þannig sé staðið að lagasmíð í landinu.

Nú er það svo að ég treysti mjög vel þeim einstaklingum sem hér koma að málum og hafa verið helstu málsvarar þar, þ.e. hv. þm. Björgvin G. Sigurðssyni, formanni nefndarinnar, og hv. þm. Pétri H. Blöndal sem skrifar undir þetta álit. Ég vænti þess að þeir, annar hvor eða báðir, geti komið með góðar skýringar vegna þeirra athugasemda, sjónarmiða og varnaðarorða sem ég hef haft hér uppi því að mér finnst miklu máli skipta, sérstaklega þegar um sérstakar álögur á borgarana er að ræða, skattalög, að vandað sé til verka og við náum þeim árangri sem að er stefnt, að eyða möguleikanum á því að menn geti komið eignum sínum og tekjum fyrir í skattaskjólum. Það er meginatriðið.