136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

366. mál
[14:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að mér láðist að þakka honum fyrir ræðuna sem var ágætisinnlegg inn í það mál sem við ræðum hér, hann benti einmitt á að ákveðnir agnúar hefðu verið á því frumvarpi sem barst Alþingi frá hæstv. ríkisstjórn. Ég held við verðum samt að sýna ákveðna sanngirni hvað það varðar að ríkisstjórnin er að vinna á mjög stuttum tíma að mörgum málum á miklum hraða. Það er eðlilegt að eitthvað skolist til og þá reynir á nefndir þingsins, að þær vinni enn frekar og enn nákvæmar í því að betrumbæta þau frumvörp.

Við lifum á óvenjulegum tímum og þó að farið sé að hægjast um hefur engu að síður verið unnið mjög hart, bæði af hendi núverandi og fyrrverandi ríkisstjórna, að mörgum frumvörpum sem bæta bæði stöðu atvinnulífsins og heimilanna. Það fer ekki hjá því að þegar menn vinna svona mörg frumvörp á stuttum tíma skolist eitthvað til og þá reynir einmitt á nefndir þingsins, að þær gæti þess að ekki verði mistök í lagasetningu. Mér sýnist einmitt að hér hafi það tekist. Mér finnst það mjög jákvætt, frú forseti, að það skuli hafa tekist að finna á þessu agnúa. Ég reikna með því að hv. nefnd í nýju þingi leysi þetta mál á þann veg að komið verði í veg fyrir að menn noti skattasmugur til þess að koma hagnaði undan skatti og eins kannski sérstaklega að auka tekjur ríkissjóðs í þessum sköttum því að tekjur ríkissjóðs af þeim tekjum sem fara úr landi voru engar en ættu að öllu eðlilegu að vera einhverjar.