136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

366. mál
[14:57]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum vel fyrir þeirra mál hér. Vissulega er tilgangurinn með þessu máli sá að girða fyrir skattsniðgöngu og koma í veg fyrir að eignir og tekjur sé fluttar í skattaskjól og ég held að það gangi eftir. Frumvarpið fékk ítarlega yfirferð í nefndinni og er stórt og mikið að vöxtum. Hvað varðar þjóðréttarlega stöðu og lagaleg úrræði tel ég að það standist fullkomlega og auðvitað er þetta alltaf með tilliti til þjóðaréttar annarra þjóða, að gera hlutina í samkomulagi við aðrar þjóðir eins og nú stendur yfir á milli allra vestrænna ríkja að komast í skattaskjólin þar sem þau hafa verið byggð upp.

Þetta er að mínu mati vönduð og ágæt lagasmíð og hér er um að ræða lagabót frá því sem upphaflega var. Ekki var kastað til höndunum í ráðuneytinu heldur var vel staðið að verki. Sem betur fer taka flest mál breytingum í nefndum og í meðförum Alþingis og mörg mjög róttækum og miklum breytingum. Það er að sjálfsögðu tilgangurinn með þinginu og nefndarstarfinu. Ráðuneytið smíðar drög að frumvörpum en þingið á að sjá um hina eiginlegu lagasmíð og ganga úr skugga um að allt standist.

Réttmætar ábendingar komu fram um það að ákvæði í frumvarpinu, um skattlagningu vaxtagreiðslnanna, gæti takmarkað mjög verulega, á þessum erfiðu tímum í heiminum öllum, fjármálalífi heimsins, aðgengi íslenskra fyrirtækja á ögurstundu að lánsfé. Þá þótti nefndinni, eftir mjög ágætan fund þar sem við fengum marga gesti, best að fella greinina brott. Ég lagði það fyrst fyrir nefndina hvort við ættum að fresta gildistökunni en það þótti mörgum nefndarmönnum ekki nógu langt gengið, það gæti hugsanlega orðið til þess að verða fyrirtækjunum til trafala út af því að þar væri bent á að þetta yrði það sem koma skyldi og því var lagt til að greinin yrði felld brott og málið skoðað betur. Um það sameinaðist nefndin og vönduð og ágæt vinna fór fram. Ég tel að vel hafi verið að verki staðið, bæði af ráðuneytinu og nefndinni.